Lýður Þór Þorgeirsson, fráfarandi framkvæmdastjóri fjárfestingasviðs Arion banka, og Rúnar Magni Jónsson, fráfarandi framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs bankans, munu taka við nýjum stöðum samhliða breyttu skipuriti. Lýður Þór mun taka við starfi forstöðumanns fyrirtækjaráðgjafar og Rúnar Magni við starfi forstöðumanns á sviði fjármögnunar fyrirtækja.

Jón Finnbogason, sem hefur gegn starfi forstöðumanns lánaumsýslu Arion banka frá árinu 2017, mun leiða fjármögnunarsvið fyrirtækja hjá bankanum.

Stjórn Arion banka samþykkti á fundi sínum í morgun nýtt skipulag bankans sem tekur gildi í dag. Sviðum bankans fækkar um tvö og ýmis verkefni færast til innan bankans með það að markmiði að einfalda starfsemina. Tekjusvið Arion banka verða þrjú: viðskiptabankasvið, fyrirtækja- og fjárfestingarbankasvið og markaðir. Stoðsvið verða einnig þrjú: fjármálasvið, upplýsingatæknisvið og áhættustýring.

Á sama tíma var um hundrað starfsmönnum bankans sagt upp. Skipulagsbreytingarnar eru liður í vegferð bankans að settum markmiðum um 50 prósent kostnaðarhlutfall og arðsemi eiginfjár umfram 10 prósent.

Eftirfarandi skipa framkvæmdastjórn Arion banka: Benedikt Gíslason, bankastjóri, Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason, aðstoðarbankastjóri og framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs, Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs, Margrét Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri markaða, Gísli S. Óttarsson, framkvæmdastjóri áhættustýringar, og Stefán Pétursson framkvæmdastjóri fjármálasviðs. Staða framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs verður auglýst laus til umsóknar.

Birna Hlín Káradóttir hefur verið ráðin yfirlögfræðingur Arion banka, en hún var áður yfirlögfræðingur Fossa markaða, og mun stýra lögfræðiráðgjöf á skrifstofu bankastjóra, en Markaðurinn upplýsti um það fyrr í þessum mánuði að hún væri á leið til Arion.