Útlit er fyrir stakkaskipti á húsnæðismarkaði og eru fyrstu merki um viðsnúning komin fram segir Kári S. Friðriksson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

„Það sem við sjáum helst er að framboð eigna til sölu er að aukast mjög hratt og svo fækkaði íbúðum til sölu sem fóru á yfirverði í maí.“

Kári segir aðgerðir Seðlabankans sjást vel, stýrivaxtahækkanirnar tvær um heilt prósentustig í hvort skipti sem og nýju greiðslumatsviðmiðin sem geri kaupendum erfiðara fyrir.

„Núna þarftu að miða við hámark 25 ára lán og lágmark þrjú prósenta vexti í greiðslumati þegar þú tekur verðtryggt lán, jafnvel þótt að greiðslubyrðin sé í raun lægri,“ segir Kári og bætir við að það geri það að verkum að fólk sem gat tekið 90 milljón króna verðtryggt lán fyrir mánuði og gat greitt 250 þúsund króna afborgun geti nú eingöngu tekið 53 milljón króna lán.

„Þetta á eftir að gera það að verkum að stór hluti fólks sem hefði getað keypt sér nýja íbúð fyrir mánuði getur það ekki í dag,“ segir Kári.

Dragi úr verðhækkunum

Kári segir áhrifin á verð eigna ekki farin að sjást enn en gerir ráð fyrir því að það muni fara draga úr verðhækkunum. „Verðhækkanatakturinn verði nær því sem hann er í eðlilegu árferði.“

Að sögn Kára er þó ómögulegt að segja til um hversu hratt eða hversu mikil áhrifin af aðgerðum Seðlabankans verði en telur viðsnúninginn geta orðið nokkuð hraðan. Áhrifin geti verið talsverð á fólk sem stendur frammi fyrir fasteignakaupum.

Á tveimur mánuðum hefur framboð á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu aukist um nær helming, eða 46 prósent, og um tvo þriðju, eða 67 prósent, frá því í byrjun febrúar síðastliðinn samkvæmt nýrri mánaðarskýrslu HMS sem birt var í morgun. Framboðið sé bæði komið til vegna minnkandi sölu og fjölgun íbúða sem bætast á sölu.

Kári segir tiltölulega fáa kaupsamninga hafa verið gerða undanfarna tvo mánuði en enn séu jafn margar eignir í sölu, mest framboð sé á eldri eignum. Meðalsölutími eigna sé farinn að lengjast, „aukningin á meðalsölutíma milli apríl og maí hefur ekki verið jafn mikill á einum mánuði síðan 2018.“

Byggingarmarkaður í hæstu hæðum

Í skýrslu HMS kemur einnig fram að umfang byggingarmarkaðarins hafi aukist. „Umfang byggingarmarkaðarins er í hæstu hæðum, umfangið hefur ekki verið jafn mikið síðan fyrir hrun,“ segir Kári og bætir við að vegna samdráttartímabils sé nú mikið af íbúðum á fyrri byggingarstigum heldur en síðari.

„Það er búið að hægja á að nýbyggðar íbúðir komi á markað en af því að þeim hefur fjölgað svo mikið á fyrri byggingarstigum þá má gera ráð fyrir að þeim fjölgi aftur, næsta árið.“

Þá segir Kári jafnframt að hlutdeild nágrannasveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins hafi verið að aukast mjög mikið, nefnir hann uppbyggingu í Árborg sem dæmi.