Fosshótel Reykjavík við Höfðatorg, stærsta hótel landsins, er að sækja um greiðsluskjól vegna tekjufalls sem rekja má til COVID-19. Þetta staðfestir Eiríkur S. Svavarsson, lögmaður félagsins, en vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið sem er í vinnslu hjá dómstólum. Ekki náðist í Davíð Torfa Ólafsson, framkvæmdastjóra Íslandshótela, móðurfélags Fosshótela, við vinnslu fréttarinnar.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa nýtt sér úrræðið en þau hafa verið tekjulítil eða tekjulaus frá því að heimsfaraldurinn hófst fyrir rúmu ári. Hótel Saga, rútufyrirtækið Gray Line og tvö fyrirtæki í eigu Arctic Adventures hafa til að mynda farið í greiðsluskjól.

Til að eiga kost á úrræðinu þarf félag að hafa orðið fyrir að minnsta kosti 75 prósenta tekjufalli á tilteknu tímabili og fyrirséð sé að handbært reiðufé og kröfur á hendur öðrum nái ekki að standa straum af áætluðum rekstrarkostnaði og afborgunum skulda næstu tveggja mánaða.

Endurskipuleggja rekstur

Stjórnendur fyrirtækja í ferðaþjónustu hafa sagt að greiðsluskjól gefi tækifæri á að endurskipuleggja reksturinn í takt við nýjan raunveruleika og semja við kröfuhafa og leigusala. Greiðsluskjólið gerir það að verkum að fyrirtækin þurfa ekki að standa skil á kröfum og ekki er hægt að knýja þau í gjaldþrot.

Greiðsluskjólsbeiðnirnar byggja á lögum sem tóku gildi síðasta sumar um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Með nauðasamningi má kveða um breytingu á greiðsluskilmálum samningsveðkrafna, þar á meðal að lengja lánstíma, fresta gjalddaga hluta skuldarinnar eða henni allri í allt að þrjú ár, að því er fram hefur komið í fréttum.

Fosshótel Reykjavík er dótturfélag Íslandshótela, stærstu hótelkeðju landsins sem hefur staðið að rekstri 17 hótela. Íþaka, systurfélag verktakafyrirtækisins Eyktar, er leigusali umrædds hótels. Eignir fasteignafélagsins námu 26 milljörðum króna árið 2019 og eiginfjárhlutfallið var 28 prósent.

Velti 2,3 milljörðum árið 2019

Á árinu 2019 velti Fosshótel Reykjavík 2,3 milljörðum króna og hagnaðist um 19 milljónir króna. Árið áður var veltan átta prósent meiri og hagnaðurinn 264 milljónir króna. Eigið fé félagsins var 722 milljónir króna árið 2019 og eiginfjárhlutfallið níu prósent. Aftur á móti var eigið fé Íslandshótela 18 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 36 prósent við lok júní 2020.

Tekjur Íslandshótela drógust saman úr 4,7 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins 2019 í 2,1 milljarð á sama tíma árið 2020. Samstæðan tapaði 184 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2019 en einum milljarði á fyrri hluta ársins 2020.

Ólafur D. Torfason á 74 prósenta hlut í Íslandshótelum og Edda, sjóður í rekstri Kviku, á 24 prósenta hlut.