„Í stuttu máli er fjárhagsstaðan og reksturinn með þeim hætti að við sáum ekki ástæðu til að halda áfram,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group um viðræðuslitin við WOW air. Í tilkynningu frá félaginu nú síðdegis kom fram að ekkert yrði að sameiningu flugfélaganna eða kaupum Icelandair á WOW.

Sjá einnig: Icelandair Group slítur viðræðum við WOW air

Spurður hvað það hafi verið sem dró Icelandair að borðinu nú nefnir Bogi að flugfélögin eigi margt sameiginlegt. Þau starfi á sama markaði, noti sama flugvöll og margt sé líkt með starfsemi þeirra. Almennt felist stærðarhagkvæmni í flugrekstri og samlegðaráhrif geti verið mikil.

Þrjár Boeing 737 Max-vélar Icelandair voru á dögunum kyrrsettar vegna tveggja mannskæðra flugslysa véla af þeirri gerð. Bogi segir, aðspurður hvort til greina hafi komið að taka við Airbus-samningum WOW air, að Icelandair hafi ekki sest við samningaborðið af þeim sökum. „Við fórum ekki í viðræðurnar út af Boeing-málinu. Við vorum að horfa á þetta til lengri tíma en ekki til að leysa skammtímamál. Síðan þegar við fórum að skoða málið og skoða allar sviðsmyndir, þá ákváðum við að ganga frá þessum viðræðum.“

Spurður hvaða aðkomu stjórnvöld hafi átt að viðræðunum vísar Bogi í yfirlýsingu Icelandair Group frá því fyrr í vikunni þar sem fram kom að stjórnvöld hefðu verið upplýst um viðræðurnar. Hann segir að stjórnvöld hafi ekki átt aðild að viðræðunum að öðru leyti.

Skúli Mogensen, eigandi WOW air, átti fyrr í vetur í viðræðum við bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners, á sama tíma og hann var í viðræðum við Icelandair. Bogi svara því neitandi að það útspil Skúla og félaga hafi spillt fyrir trausti á milli aðila. „Ég myndi ekki segja það. Menn eru í ákveðinni stöðu og reyna að leita allra leiða til að lesa málin. Þetta var bara staðan sem kom upp.“