GWIN, móðurfélag heildverslunarinnar Kalla K, jók hlutafé um 152 milljónir í maí síðastliðnum en eigið fé félagsins var 150 milljónir árið 2020. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Örn Héðinsson, framkvæmdastjóri Kalla K, segir að ástæðan fyrir því að ákveðið hafi verið að auka hlutafé sé að félagið sé í stækkunarfasa.

„Félagið er í uppbyggingarfasa og það eru miklar breytingar í gangi hjá okkur varðandi stækkun. Gott dæmi um það er að á undanförnu einu og hálfu ári höfum við verið að yfirtaka vörumerki og fleira. Síðast í október vorum við að kaupa heildsölu sem heitir Einstök matvara. Einnig vorum við að yfirtaka stóra heilsuvörulínu og erum að færa okkur yfir á þann markað.“

Aðspurður hvort hluthafahópurinn hafi tekið breytingum svarar hann því neitandi og tekur fram að allir hluthafar hafi lagt jafnmikið af mörkum í samræmi við hlutdeild sína.

Hann segir jafnframt að reksturinn á síðasta ári hafi gengið mjög vel í ljósi aðstæðna og hann sé bjartsýnn á horfurnar í rekstrinum á næsta ári.

Heildverslunin Kalli K tapaði 12,6 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 2,8 milljóna hagnað árið á undan. Stærsti hluthafi í félaginu er Hannes Hilmarsson, stjórnarformaður Atlanta, og fer hann með 40 prósenta hlut.

Aðrir hluthafar eru fyrrnefndur Örn, Stefán Hilmarsson og Helgi Hrafn Hilmarsson.Kalli K er innflutnings- og heildsölufyrirtæki sem flytur inn áfengar og óáfengar drykkjarvörur, matvörur, sælgæti og hreinlætisvörur. Meðal vörumerkja sem fyrirtækið selur er Krombacher, Bolla, San Miguel og Lindt.