Dag­bjartur Arilíus­son, fram­kvæmda­stjóri Steðja Brugg­húss í Borgar­firði, segist vera til­búinn til þess að leita réttar síns hjá EFTA-dóm­stólnum verði honum meinað á­fram­haldandi net­sölu á bjór brugg­hússins. Þetta sagði hann í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Ég reikna með því, að láta reyna á þetta. Því þetta gengur hrein­lega bara ekki lengur. Við þurfum ein­hvern veginn að lifa af,“ segir Dag­bjartur. „Okkur finnst þetta bara vera mis­munun ís­lenskra þegna. Við erum ís­lenskt fyrir­tæki og ættum, finnst okkur, að fá að ganga fyrir á Ís­landi.“

Líkt og Frétta­blaðið greindi frá á dögunum var brugg­húsið hið fyrsta á Ís­landi til að opna vef­verslun með á­fengi.

Fram kom í Morgun­blaðinu í gær að lög­reglan á Vestur­landi rann­saki nú net­verslunina. Dag­bjartur segir að­spurður af þátta­stjórn­endum að hann hafi verið boðaður í skýrslu­töku vegna málsins.

„Já já, það er búið að boða okkur í skýrslu­töku og ég held það sé búið að panta pláss fyrir mig á Litla Hrauni. Kannski fæ ég að taka brugg­tækin með mér,“ segir hann í kald­hæðni.

Þannig þú ætlar með þetta alla leið?

„Við sjáum ekkert annað í stöðunni en að láta hart mæta hörðu. Við erum náttúru­lega litli aðilinn í þessu en eigum gríðar­legt bak­land og finnum alveg stuðninginn,“ segir hann.

Segjum sem svo að ég byggi í út­löndum, mætti ég panta frá þér bjór?

„Já, og við erum á fullu í því líka og höfum verið í því í gegnum tíðina. Við erum með dreifingar­aðila úti er­lendis líka sem er að selja fyrir okkur vöru. Við vorum að hugsa um að fá þá til liðs við okkur og panta bara þaðan hrein­lega og kaupa af þeim aftur vöruna okkar til að selja hérna á Ís­landi. En okkur finnst þetta bara svo galið að við viljum fara hreinu leiðina að þessu og stöndum bara og föllum með því sjálf.“

Dreifingar­kerfi ÁTVR kemur illa við smærri brugg­hús

Dag­bjartur segir að dreifing ÁTVR hafi reynst brugg­húsinu þar sem þrír starfa þrándur í götu. Hann segir reglur ÁTVR snúast um fjár­hags­lega mis­munun, stærri aðilar fái betra og meira hillu­pláss, á meðan bjórar Steðja dúsi í hillum baka­til.

„Svo þegar við komumst að því núna að jóla­bjórinn okkar er bara að fara í tvær verslanir, en jóla­bjórinn hefur verið svo­lítil upp­grip fyrir okkur, að þá urðum við bara að grípa til ein­hverra ráða. Og þetta er eitt­hvað sem við höfum verið búin að hugsa í mörg ár, það er að segja vef­verslun,“ segir Dag­bjartur.

Hann bendir á að net­verslun með bjór sé heimil sam­kvæmt EES-reglum. „Í stuttu máli getur þú keypt bjór er­lendis frá og fengið hann sendan heim með póstinum, án nokkurra kvaða eða vanda­mála. En sem Ís­lendingur geturðu ekki keypt ís­lenska vöru og fengið heim senda. Það er al­gjör­lega galið.
Þið sjáið það bara, ef að Þjóð­verjar mættu bara kaupa bjór frá Frakk­landi, myndi það ganga upp?“

Óttast að áfengisfrumvarp verði ekki samþykkt

Hann segist hafa verið ný­kominn úr hring­ferð í gær þar sem hann stóð í dreifingu og kynningu á net­verslun Steðja. „Við gríðar­legar undir­tektir og hvatningu. Því fólk sér þessa mis­munun alveg í gegn og vill hjálpa litla aðilanum.“

Dagbjartur segist óttast að frum­varp dóms­mála­ráð­herra þar sem lagt er til að rekstur inn­lendra vef­verslana með á­fengi verði heimilaður, muni stranda á þingi eða í ríkis­stjórn. „Við erum mjög hrædd um það að þetta fari ekki í gegn.“