Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, seldi í morgun hlutabréf í fjármálafyrirtækinu fyrir 85,1 milljón króna. Salan fór fram í gegnum einkahlutafélagið Spelkan á genginu 47,3. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Með sölunni seldi hann 46 prósent af eign sinni í TM. Eftir viðskiptin á félag hans 2.072.403 hluti í fjármálafyrirtækinu. Miðað við gengið í viðskiptunum er sá hlutur metinn á 98 milljónir króna.

Fyrir viku samþykktu stjórnir Kviku banka og TM að sameina félögin. Þau verða sameinuð undir merkjum Kviku en TM mun færa vátryggingastarfsemi sína í félagið TM tryggingar sem verður dótturfélag sameinaðs félags.

Marinó Örn Tryggvason verður forstjóri Kviku og Sigurður Viðarsson verður forstjóri TM trygginga.