Kevin Mayer hefur nú stigið til hliðar sem for­stjóri sam­fé­lags­miðilsins TikTok og fram­kvæmda­stjóri Byt­eDance, sem rekur TikTok, en Myers tók við stöðunni síðast­liðinn maí. Að sögn Mayers áttu pólitískar breytingar mikinn þátt í upp­sögninni en banda­rísk stjórn­völd hafa í­trekað reynt að hafa af­skipti af fyrir­tækinu.

„Síðast­liðnar vikur, á meðan pólitískar kring­um­stæður hafa tekið skörpum breytingum, hef ég verið að velta al­var­lega fyrir mér hvað kerfis­lægar breytingar innan fyrir­tækisins muni fela í sér og hvað það þýðir fyrir hlut­verk mitt í al­þjóða­sam­henginu,“ sagði Mayer í skila­boðum til starfs­manna sem CNN birtir.

Ljóst að hlutverk forstjóra muni breytast

Líkt og áður hefur verið greint frá hefur Donald Trump Banda­ríkja­for­seti hótað að banna TikTok í Banda­ríkjunum þar sem stjórn­völd hafa efast um öryggi for­ritsins og sakað fyrir­tækið um að safna upp­lýsingum um banda­ríska not­endur. Micros­oft stendur nú í við­ræðum við Byt­eDance um að kaupa for­ritið í Banda­ríkjunum, Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjá­landi.

„Hlut­verkið sem ég tók að mér, þar á meðal að reka TikTok á heims­vísu, mun líta allt öðru­vísi út í ljósi kröfu ríkis­stjórnar Banda­ríkjanna um að selja banda­ríska hluta fyrir­tækisins,“ sagði Mayer enn fremur og tók fram að það hafi dregið hann að starfinu að sjá um banda­ríska hlutann en um 100 milljón manns nota miðilinn í Banda­ríkjunum.

Stofnandi Byt­eDance, Z­hang Yiming, sagðist skilja á­kvörðun Mayers og óskaði honum góðs gengis en Vanessa Pappas, sem er meðal annars fram­kvæmda­stjóri TikTok í Norður-Ameríku, hefur nú tekið tíma­bundið við stöðu for­stjóra TikTok á heims­vísu.