„Þetta er 100 prósent túnfiskur,“ sagði John Chidsey, forstjóri skyndibitakeðjunnar Subway, í þættinum Fox Business. Hann hafnar alfarið fréttaflutningi um að túnfiskurinn í túnfisksalati Subway sé ekki túnfiskur.

Líkt og greint hefur verið frá tókst ekki að greina erfðaefni úr tún­fisk í tún­fisk­sam­loku Subway í Banda­ríkjunum í rann­sókn á vegum New York Times.

„Það eru tvær skýringar á þessu,“ sagði vísinda­maður í sam­tali við New York Times. „Númer eitt, þetta er svo mikið unnið að við gátum ekki greint DNA-ið úr sýnunum. Eða númer tvö að við náðum að greina þau en það er bara enginn tún­fiskur í þeim.“

Skyndibitarisinn réðist í kjölfarið í mikla herferð til að rétta sinn hlut og hafa opnað vefinn Subwaytunafacts.com.

Chidsey segir að erfðaefnarannsókn sé ekki rétta leiðin til að komast að hinu sanna. „Ef þú notar vísindi, þegar búið er að elda túnfiskinn þá hverfur erfðaefnið,“ sagði Chidsey. „New York Times tók það meira að segja fram í umfjöllun sinni.“