„Þessi ummæli Boga sem benda til þess að Icelandair vilji ekki samkeppni virðast nú hafa farið öfugt ofan í fólk miðað við þau viðbrögð sem við höfum fengið,“ segir Arnar Már Magnússon, forstjóri PLAY.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group og maður ársins í íslensku viðskiptalífi samkvæmt vali dómnefndar Markaðarins, telur fullreynt að reka tvö flugfélög frá Íslandi með Keflavíkurvöll sem tengimiðstöð.

„Þetta hefur verið reynt tvisvar áður, fyrst með Iceland Express og síðar WOW air," sagði Bogi Nils í viðtali sem birtist í áramótablaði Markaðarins í gær, þegar hann var spurður um mögulega samkeppni frá PLAY, nýju lággjaldaflugfélagi, sem hefur boðað innkomu sína á markaðinn.

„Við sjáum þetta aðeins á stórum alþjóðlegum flugvöllum,“ bætti Bogi Nils við, „eins og til dæmis í Sao Paulo, Tókýó, Chicago og New York, en í flestum tilfellum, jafnvel á flugvöllum í kringum borgir með milljónir manna, þá er aðeins um að ræða eitt flugfélag – eða jafnvel ekkert – sem rekur tengimiðstöð á viðkomandi flugvelli.“

Arnar Már segir deginum ljósara að Íslendingar vilji samkeppni í flugi, nýjar, sparneytnar og öruggar flugvélar og rekstrarmódel og þjónustu sem er í takti við nútímann og skilar lægra farmiðaverði.

„Við teljum því að það sé gott pláss á markaðnum fyrir PLAY. Við komum beinlínis inn á þennan markað því við vitum að PLAY getur gert betur. Við getum ekki tekið þessum ummælum öðruvísi en svo að Icelandair hafi áhyggjur af komandi samkeppni og minnist því á þetta núna. Við treystum því hinsvegar að Icelandair muni heyja sína samkeppni heiðarlega og Íslendingar muni njóta góðs af virkri samkeppni á heimamarkaðnum “