Stjórn dönsku skartgripakeðjunnar Pandóru hefur sagt forstjóranum, Anders Friis, upp störfum aðeins þremur dögum eftir að keðjan sendi frá sér svarta afkomuviðvörun. Peder Tuborgh, stjórnarformaður Pandóru, segir það mat stjórnarinnar að of langan tíma hafi tekið að hrinda nýrri stefnu skartgripakeðjunnar í framkvæmd.

Friis lætur af störfum í lok mánaðarins, að því er segir í frétt Financial Times. Hlutabréf í Pandóru hríðféllu um fjórðung í verði á þriðjudag, daginn eftir að stjórnendur keðjunnar lækkuðu afkomuspá sína fyrir árið.

Fjárfestar, sem hafa margir hverjir gagnrýnt störf Friis, fögnuðu ákvörðun stjórnarinnar en til marks um það hækkuðu hlutabréf í keðjunni um fimm prósent í verði eftir að tilkynnt var um uppsögnina. Gengi bréfanna hefur alls lækkað um 50 prósent á undanförnum þremur mánuðum.

Tuborgh segir í samtali við Financial Times að það verði verkefni nýs forstjóra að hrinda nýlegri stefnu keðjunnar í framkvæmd en samkvæmt henni hyggst Pandóra blása til sóknar á mörkuðum um allan heim og opna fjölmargar nýjar verslanir á næstu misserum.

„Við erum alveg viss um að stefnan er hin rétta. Það tekur bara lengri tíma að hrinda henni í framkvæmd. Það hefur gengið örðugra fyrir sig en við héldum og fjárfestar geta sætt sig við. Við þurfum því að breyta til,“ segir stjórnarformaðurinn.

Miklar sveiflur hafa verið á gengi hlutabréfa í danska skartgripaframleiðandanum eftir að hann var skráður á hlutabréfamarkað árið 2010. Hátt í 70 prósent af markaðsvirði félagsins þurrkaðist út eftir svartar afkomuviðvaranir árið 2012 en á næstu fjórum árum þrjátíufaldaðist hins vegar virði Pandóru.

Markmið skartgripakeðjunnar er að ná árlegum söluvexti upp á 7 til 10 prósent og að EBITDA félagsins - afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta - verði um 35 prósent af tekjum. Á mánudag greindi Pandóra frá því að söluvöxturinn yrði aðeins á bilinu 4 til 7 prósent í ár og að EBITDA-hlutfallið yrði enn fremur um 32 prósent.