Í allri orrahríðinni um söluna á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka þann 22. mars síðastliðinn hafa spjótin meðal annars beinst að stjórn Bankasýslu ríkisins og Jóni Gunnari Jónssyni forstjóra.

Stofnunin hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir sína aðkomu að málinu, meðal annars af þingmönnum og ráðherrum.

Jón Gunnar segist sannfærður um að það sé ekkert við aðkomu stofnunarinnar að athuga.

Útboðið hafi verið vel heppnað og í fullu samræmi við minnisblað sem lagt var fyrir ráðherra og nefndir Alþingis í janúar. Hann sé reiðubúinn að svara allri gagnrýni efnislega.

Mikilvægt sé þó að hafa í huga að fjárhagsleg niðurstaða útboðsins hafi verið betri en búist var við. „Þetta fór nákvæmlega eins fram og við höfðum lýst,“ segir Jón Gunnar.

Hann segir að þingmenn verði sjálfir að svara fyrir það af hverju athugasemdir varðandi söluna komu ekki fram þegar málið var til meðferðar í nefndum og fyrirkomulagið kynnt

„Efnislega er mjög erfitt að taka undir það að ferlið hafi verið með einhverjum öðrum hætti en það var kynnt í upphafi,“ segir Jón Gunnar.

Bankasýslan hefði vissulega getað staðið betur að því hvernig upplýsingum var miðlað til almennings, að mati hans. Á sama tíma bendir hann á að við framkvæmdina hafi Bankasýslan birt mun ítarlegri gögn en gengur og gerist erlendis.

„En ef við lítum á stóru myndina þá erum við að tala um þriðja stærsta hlutafjárútboð Íslandssögunnar. Ríkissjóður hefur aflað tæplega 110 milljarða með þessari sölu á síðustu 9 mánuðum,“ segir Jón Gunnar.

Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, hefur gengið einna lengst í gagnrýninni á Bankasýsluna. Hann hefur krafist þess að stjórn og forstjóri stígi til hliðar.

Jón Gunnar segir þingmanninn aldrei hafa sett sig í samband við Bankasýsluna til að reyna að afla frekari upplýsinga um ferlið eða söluna. Hann segist ekki átta sig á því hvað búi að baki þessari kröfu Bjarna.

Jón Gunnar telur gæta nokkurs misskilnings varðandi fyrirkomulag útboðsins. Farin hafi verið sú leið að leita til fagfjárfesta með tilboðsfyrirkomulagi. Sú leið hafi verið talin heppileg þar sem eitt af markmiðunum var að fá verð fyrir hlutinn í bankanum sem væri sem næst markaðsverði.

Á sama tíma væri tilboðsleiðin best til þess fallin að lágmarka áhættu ríkissjóðs. Hann bendir á að þetta tiltekna fyrirkomulag sé langalgengasta útboðsleiðin víða um Evrópu.

En það er ekki bara aðferðafræðin við útboðið sem hefur verið gagnrýnd. Þingmenn hafa fundið að því að ekki hafi verið gert ráð fyrir lágmarksupphæð í útboðinu.

Jón Gunnar svarar því til að þetta sé raunar spurning sem ætti að beina að þingmönnunum sjálfum. „Það er þeirra að spyrja spurninganna í þessum aðstæðum.“ Að hans mati geti vel verið að einhver skilyrði um lágmarksfjárhæðir, eins og talað hefur verið um, hefðu getað komið í veg fyrir að minni fjárfestar væru á meðal þeirra sem tóku þátt í útboðinu.

Slík skilyrði geti þó skapað önnur vandamál og beinlínis unnið gegn markmiðum um dreift eignarhald og opið söluferli. Hann segir mikilvægt að hafa í huga að það sé ekki Bankasýslunnar að ákveða hverjir teljist fagfjárfestar. „Það er á foræði fjármálafyrirtækjanna sjálfra. Allir þeir sem flokkuðust undir þessa skilgreiningu og uppfylla skilyrði útboðsins gátu tekið þátt,“ áréttar Jón Gunnar.

Um frekari sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka segir Jón Gunnar ljóst að Bankasýslan muni bíða eftir niðurstöðu Ríkisendurskoðunar, sem falið hefur verið að fara í saumana á sölunni. Hann segist fagna athuguninni, sem og fyrirhugaðri rannsókn Fjármálaeftirlitsins. Einkum og sér í lagi á þeim þáttum sölumeðferðarinnar sem snúi að fjármálafyrirtækjum.

„Ég held það sé rétt að bíða með næstu skref þangað til niðurstöður þessara tveggja kannana liggja fyrir.“