Business Roundtable, samtök forstjóra hjá stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna, vilja nú endurskilgreina hlutverk fyrirtækja, en frá árinu 1997 hefur kennisetning samtakanna verið sú að æðsta skylda stjórnenda og stjórna sé að hámarka hag hluthafa. Síðasta haust gáfu samtökin út yfirlýsingu um að kennisetningunni hefði verið breytt. Hlutverk fyrirtækja felist ekki einungis í því að hámarka hag hluthafa heldur þurfi þau einnig að taka þátt í umhverfisvernd og stuðla að fjölbreytni. Nánar var fjallað um málið í The New York Times.

Íslandsbanki er þátttakandi í samtökunum Nordic CEOs for a sustainable future sem er samstarfsvettvangur fyrir forstjóra norrænna stórfyrirtækja s.s. SAS, Telenor, Swedbank, Storebrand, Marel og fleiri. Birna Einarsdóttir bankastjóri sat fund á vegum samtakanna í byrjun árs.

„Þetta eru allt fyrirtæki sem hafa verið leiðandi á sviði samfélagslegrar ábyrgðar eða sjálfbærni á Norðurlöndum á undanförnum árum. Hugmyndin er að ef við ætlum að ná heimsmarkmiðunum á næstu 10 árum og styðja við Parísarsamkomulagið þá sé ekki nóg að ríkisstjórnir, almenningur og félagasamtök séu að sinna þessum málaflokki heldur þurfa fyrirtæki líka að leggja sitt af mörkum,“ segir Gunnar Sveinn Magnússon, sérfræðingur í sjálfbærri þróun, í umfjöllun Markaðarins um aukningu í því að íslensk fyrirtæki taki afstöðu til samfélagsmála.

„Það er mikill metnaður í þessum hópi og auðvitað eru loftslagsmálin fyrirferðarmest. Þó eru öll fyrirtækin sammála um nauðsyn þess að hlúa líka að öðrum þáttum sjálfbærninnar sem tengjast fjölbreytileika og jafnrétti kynjanna.“