Forsætisráðherra hefur vísað máli vegna meints upplýsingaleka frá Seðlabankanum til RÚV til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Rannsókn innri endurskoðanda Seðlabankans leiddi í ljós að þáverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabankans, Ingibjörg Guðbjartsdóttir, og starfsmaður RÚV hefðu verið í tölvupóstsamskiptum. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

Gjaldeyriseftirlitið rannsakaði meint brot Samherja á lögum um gjaldeyrismál í mörg ár.
Fréttablaðið/Anton Brink

Átti í tölvupóstsamskiptum við starfsmann RÚV

Málið sneri að húsleit hjá Samherja sem var ráðist í þann 27. mars árið 2012. RÚV hafði greinilega verið greint frá húsleitinni því frétta- og myndatökumenn voru mættir við skrifstofur Samherja áður en húsleitin hófst.

Gjaldeyriseftirlitið rannsakaði meint brot Samherja á lögum um gjaldeyrismál í mörg ár og lagði stjórnvaldssektir á fyrirtækið. Þær voru síðar dæmdar ógiltar í Hæstarétti í fyrra.

Umboðsmaður Alþingis beindi því til forsætisráðherra í mars að hann teldi ástæðu til að óska eftir nánari upplýsingum frá Seðlabankanum um meinta upplýsingagjöf til RÚV í aðdraganda húsleitarinnar. Forsætisráðherra óskaði svo eftir upplýsingum frá bankanum þann 12. apríl.

Ingibjörg Guðbjartsdóttir var framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabankans á árunum 2009 til 2017.
Fréttablaðið/Pjetur

Í ágúst barst svo svarbréf frá bankanum þar sem kemur fram að skoðun hafi leitt í ljós að fyrrverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlitsins hafi átt í tölvupóstsamskiptum við starfsmann RÚV í rúman mánuð áður en húsleitin var gerð.

Ingibjörg Guðbjartsdóttir var þá framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlitsins en samningur sem bankinn gerði við hana um námsstyrk upp á 18 milljónir króna hefur verið til umfjöllunar upp á síðkastið.

Í kjölfarið vísaði forsætisráðherra svo málinu til embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, vegna þess að háttsemin var talin geta falið í sér refsivert brot.