Forrit fortíðar í sálartetrinu þvælast fyrir ýmsum síðar á lífsleiðinni þegar þeir eru orðnir stjórnendur og hafa ýmsir eiginleikar ættaðir úr æsku veruleg áhrif á samskiptafærni þeirra – oft án þess að þeir geri sér grein fyrir því.

Um þessi mál er meðal annars rætt í þættinum Stjórnandinn með Jóni G. sem verður á dagskrá Hringbrautar í kvöld.

Þar ræðir Jón við Thor Olafsson, forstjóra og stofnanda Strategic Leadership Group, en hann gaf út bókin Beyond Ego (Handan við sjálfið) – the inner Compass of consicous Leadership. Þetta er afar athyglisvert viðtal og viðamikið.

Hægt er að nálgast bókina á Amazon og hefur hún þegar fengið mjög góðar viðtökur.

Thor segir að þekkt sé að of mikið egó ýmissa leiðtoga geti verið eyðileggjandi því þeir einblíni of mikið á eigin egó og missi þá sjónar á því sem er best fyrir teymið eða fyrirtækið. Oft megi rekja þessi egómynstur til áhrifa sem viðkomandi urðu fyrir í æsku; egómynstur sem þeir beri ekki kennsl á eða kunni ekki á aðferðir til að komast út fyrir þau.

Í bókinni kynnir Thor svonefndan Innri áttavita sem er leið sem hann hefur kynnt og prófað sem markþjálfi og stjórnendaþjálfari meðal æðstu stjórnenda og æðstu teyma.

Thor stofnaði fyrirtæki sitt Strategic Leadership Group árið 2008 í Þýskalandi. Í upphafi var hann með manneskju í hálfu starfi með sér. Núna starfa yfir 50 manns í fyrirtækinu, þar af yfir 40 markþjálfar og stjórnendaþjálfar, og er fyrirtækið með starfsstöðvar í þremur löndum og hefur unnið að verkefnum í yfir fjörutíu löndum.

Þátturinn Stjórnandinn með Jóni G. er á dagskrá Hringbrautar öll sunnudagskvöld og endursýndur fram að kvöldmat á mánudögum.