„Það verður að setja neyðarlög til að verja heimilin fyrir þessum gegndarlausu hækkunum, hvort sem er á leigu eða lánum og að það sé ekki þegar búið er ríkisstjórninni til háborinnar skammar,ׅ“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í nýrri færslu á Facebook.

Pistill Ragnars Þórs hefur yfirskriftina Heilagar kýr og þjónar þeirra. „Á Íslandi er fjármagnið hin heilaga kýr og það á marga ofvaxna kálfa sem gegna svipuðu hlutverki. Að mergsjúga spena heimilanna,“ segir hann.

„Í ákveðnum trúarbrögðum eru kýr heilagar og undir þær er hlaðið og við þeim ekki hróflað þó fólk búi við hungurmörk og svelti heilu hungri og á Íslandi gildir það sama,“ heldur formaður VR áfram.

„Okkar heilögu kýr gegna ýmsum nöfnum, eins og t.d. Markaðurinn, Alma, Íslandsbanki, Arion, Landsbanki, Kauphöll, Fjármagnseigendur, Útgerðin, Fagfjárfestar, Aflandsfélög, Skúffufyrirtæki, Verðtrygging, svo nokkrar þeirra séu nefndar,“ rekur Ragnar Þór.

„Alveg sama hversu daunillur skítur þeirra er, þá þjóna ríkisstjórnin og Seðlabankinn öllum þessum beljum af stakri trúmennsku og friðþægja þeim reglulega með því að kasta til þeirra heimilum landsins til að sefa óseðjandi græðgi,“ segir að endingu í pistli formanns VR.