Mikilvægt er að ríki og stjórnvöld átti sig á því að ekki sé eðlilegt að auka stöðugt við útgjöld og senda þann reikning á skattgreiðendur. Þetta var á meðal þess sem kom fram í ávarpi Eyjólfs Árna Rafnssonar, formanns Samtaka atvinnulífsins, á ársfundi Samtakanna sem hófst um tvöleytið í dag. Þar er tuttugu ára afmæli samtakanna fagnað.

„Prófsteinn á þróun kjaramála á Íslandi til næstu ára er fólginn í niðurstöðu í kjarasamningum hins opinbera sem nú standa yfir. Lífskjarasamningurinn hlýtur að varða leiðina fyrir þessa samninga, annað er óhugsandi. Fyrirtæki á einkamarkaði verða að standast samkeppni við erlenda keppinauta sína. Þau bregðast við með margskonar hagræðingu og fækkun starfsfólks ef samkeppnishæfni atvinnuveganna er ógnað,“ sagði Eyjólfur Árni á fundinum.

„Hið opinbera býr ekki við sambærilegt aðhald og því verður almenni vinnumarkaðurinn að leiða kjaraþróun í landinu. Ef hlutverkin snúast við, þannig að ríki og sveitarfélög lofi frekari launahækkunum, mun almenni markaðurinn fylgja í kjölfarið, þótt svigrúmið sé ekki fyrir hendi,“ sagði Eyjólfur Árni. Afleiðingin yrði fækkun starfsfólks og verðbólga eins og dæmin sönnuðu. Kjör allra myndu versna.

Eyjólfur vakti jafnframt athygli á því að samkeppnishæfni Íslands væri lakari en Norðurlandanna. Skýringa mætti leita í háum vöxtum, háum sköttum og íþyngjandi lagaumhverfi.

„Brýnt og krefjandi verkefni er að vinna að breytingum á regluverki og öðrum þáttum til að fyrirtæki hér búi við rekstrarskilyrði í fremstu röð. En það þarf vissulega fleira að koma til ef tryggja á samkeppnishæfni og lífskjör í landinu til lengri tíma, m.a. þættir sem snúa að gildum okkar og samfélagsgerð.“

Óhóf ekki til álitsauka

Þá sagði hann sérstaklega ánægjulegt að traust fólks á eigin atvinnurekanda væri jafnan með því mesta sem mældist og almennt væri traust á íslenskum fyrirtækjum mikið. Traust, samheldni og gagnkvæm virðing skiptu verulegu máli fyrir almennan stöðugleika í samfélaginu og þá ekki síst framkoma einstaklinga, stjórnmálamanna og annarra, sem sýnilegastir eru almenningi.

„Forystumenn fyrirtækja og stofnana verða að gæta þess að kjör þeirra séu í eðlilegu samhengi við það sem gengur og gerist. Óhóf er ekki til álitsauka í íslensku samfélagi.“