Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR og formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, segir að stjórn sjóðsins muni meta þátttöku í útboði Icelandair með sama hætti og aðrar fjárfestingar. Sjóðsfélagar geti treyst því að stjórnarmenn láti ekki undan utanaðkomandi þrýstingi.

„Við tökum okkar sjálfstæðu ákvarðanir í stjórninni þannig að þetta breytir engu hjá okkur,“ segir Stefán, spurður hvernig hann sjái þetta mál.

Stjórn VR sendi frá sér yfirlýsingu 17. Júlí síðastliðinn vegna málefna Icelandair. Þar var þeim tilmælum beint til þeirra stjórnarmanna sem VR skipar í stjórn lífeyrissjóðsins að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair. Var það gert vegna óánægju stjórnar VR með það hvernig Icelandair hefði staðið að kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands. Þá sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í viðtali við Fréttablaðið sama dag að stjórnarmönnum VR í sjóðnum sem ekki færu eftir tilmælum VR yrði skipt út.

Samtök atvinnulífsins fóru fram á að Seðlabanki Íslands gripi til tafarlausra aðgerða, umfram almenn tilmæli, til að standa vörð um sjálfstæði Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og hag sjóðsfélaga. Seðlabankinn þyrfti að koma í veg fyrir afskipti VR af ákvarðanatöku stjórnar sjóðsins og tryggja þannig að faglega yrði staðið að fjárfestingaákvörðunum í sambandi við hlutafjárútboð Icelandair. Í kjölfarið tilkynnti Ragnar Þór að hann myndi draga til baka til­mæli sín um snið­göngu hluta­fjár­út­boðs Icelandair.

Geta sjóðsfélagar treyst því að stjórnarmenn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna muni ekki láta undan utanaðkomandi þrýstingi?

Já, algjörlega, við metum þessa fjárfestingu eins og aðrar fjárfestingar. Það verður tekið tillit til ávöxtunar og áhættu og annarra atriða eins og vera ber. Við erum enn að bíða eftir útboðslýsingu,“ segir Stefán. Aðspurður segist hann telja að einhugur sé um þessa skoðun í stjórninni.

„Ég hef ekki heyrt í þeim síðustu daga en þegar ég heyrði í þeim fyrir helgi var það staðan,“ segir Stefán.

Stefán var kjörinn í stjórn lífeyrissjóðsins af VR ásamt Bjarna Þór Sigurðssyni, Guðrúnu Johnsen og Helgu Ingólfsdóttir. Bjarni Þór og Helga sitja einnig í stjórn VR.

Jón Ólafur Halldórsson var tilnefndur af Kaupmannasamtökum Íslands, Guðný Rósa Þorvarðardóttir var tilnefnd af Félagi atvinnurekenda, Guðrún Hafsteinsdóttir varaformaður var tilnefnd af Samtökum iðnaðarins og Árni Stefánsson var tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins.