Ekki var einhugur í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem var annar stærsti hluthafi Icelandair Group með 11,8 prósenta hlut, um þá ákvörðun að taka ekki þátt í hlutafjárútboði flugfélagsins sem lauk í gær. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins féll tillagan á jöfnum atkvæðum þar sem fjórir stjórnarmenn greiddu atkvæði með og fjórir greiddu atkvæði gegn.

„Við fórum í gegnum mjög ítarlegt mat á þessum fjárfestingarkosti og komumst að því að áhættan var töluverð og mögulegir ávöxtunarmöguleikar voru ekki nógu miklir til að vega upp þá áhættu sem var í þessu fjárfestingatækifæri,“ segir Stefán Sveinbjörnsson, formaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og framkvæmdastjóri VR, í samtali við Fréttablaðið.

Spurður um atkvæðagreiðsluna segir Stefán að ekki verði gefin upp afstaða hvers og eins stjórnarmanns. „En það var ekki einhugur,“ bætir hann við.

Ásamt Stefáni eru Bjarni Þór Sigurðsson, Guðrún Johnsen og Helga Ingólfsdóttir kjörin í stjórn sjóðsins af VR. Jón Ólafur Halldórsson er tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, Guðný Rósa Þorvarðardóttir af Félagi atvinnurekenda, Guðrún Hafsteinsdóttir af Samtökum iðnaðarins og Árni Stefánsson af Samtökum atvinnulífsins.

Birta lífeyrissjóður, sem var fimmti stærsti hluthafi Icelandair Group með rúmlega 7 prósenta hlut, tók heldur ekki þátt í útboðinu. Samstaða var um þessa ákvörðun bæði hjá starfsmönnum og stjórn eftir ítarlega skoðun á málinu.

Útgefið hlutafé Icelandair mun þynnast niður í um 19 til 21 prósent eftir útboðið og ef nýir fjárfestar félagsins nýta sér þau áskriftarréttindi sem fylgja með bréfunum, sem hægt verður að gera í einu lagi eða skrefum til allt að tveggja ára, þynnist eignarhlutur hluthafa niður í allt að 16 prósent.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), stærsti lífeyrissjóður landsins, skilaði inn skuldbindandi tilboði fyrir umtalsverðum eignarhlut í flugfélaginu, og Gildi lífeyrissjóður tók einnig þátt.