Egill Örn Jóhannsson, bókaútgefandi og framkvæmdastjóri Forlagsins, segir að ótrúleg breyting hafi orðið á bókaútgáfu á Íslandi á aðeins og að Forlagið gefi út fleiri hljóðbækur á þessu ári en prentaðar bækur.

Þetta kemur fram í þættinum Stjórnandinn með Jóni G. á Hringbraut en þátturinn er á dagskrá stöðvarinnar kl. 19 í kvöld, laugardagskvöld, og endursýndur eftir það. Jón fær til sín þau Egil Örn, Herdísi Pálu Pálsdóttur, framkvæmdastjóra hjá Deloitte og Eyþór Ívar Jónsson hjá Akademias.

„Á þessu ári gefur Forlagið í fyrsta skipti út fleiri hljóðbækur en prentaðar bækur. Fyrir aðeins örfáum árum gáfum við ekki út eina einustu hljóðbók - en í ár eru þær líklega á þriðja hundrað sem við gefum út fyrir íslenskan markað. Þetta mun hins vegar ekki hafa áhrif á jólamarkaðinn nema til góðs. Bækur verða áfram vinsælasta jólagjöfin líkt og þær hafa verið undanfarin áttatíu ár. Hljóðbækur eru ekki á gjafamarkaði.“

ENDURGREIÐSLAN HELDUR ATVINNUGREININNI Á FLOTI

Egill segir að bókaútgáfa eigi undir högg að sækja. „Það sem hefur bjargað íslenskri bókaútgáfu er endurgreiðslufrumvarp Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra. Bókaútgáfur fá endurgreiddan kostnað eins og kvikmyndabransinn og tónlistariðnaðurinn. Það er þessi endurgreiðsla sem heldur atvinnugreininni á floti.“

BRENNUM EKKI FYRIR HAGNAÐI EÐA VEGTYLLUM

Egill er þriðji ættliður þekktra bókaútgefenda. Faðir hans, Jóhann Páll Valdimarsson, hefur nýlega stigið af sviðinu og afi hans, Valdimar Jóhannsson, ólst upp á fátæku sveitaheimili í Svarfaðardal, en hélt til Reykjavíkur og stofnaði bókaforlagið Iðunn árið 1945.

Hvað tekur þú með þér úr ævistarfi afa þíns og föður?

„Fyrst og fremst ástríðuna. Við höfum allir þrír; ég, faðir minn og afi, brunnið fyrir útgáfu bóka. Við brennum ekki fyrir hagnaði eða einhverjum vegtyllum heldur því að gefa út bækur. Það hefur fylgt okkur þremur alla tíð,“ segir Egill Örn Jóhannsson.