Jakob Már Ásmundsson, sem setið hefur í stjórn Arion banka frá því í mars í fyrra, hefur ákveðið að segja sig úr stjórn bankans. Þetta kemur fram í bréfi sem hann hefur skrifað til stjórnar bankans.

Ástæðan fyrir afsögninni, að sögn Jakobs, er atvik sem kom upp í gleðskap á vegum bankans síðasta fimmtudag, „þar sem ég drakk of mikið áfengi og fór yfir strikið í samskiptum mínum við starfsmenn og viðskiptavini,“ segir hann í úrsagnarbréfinu. 

„Þar sagði ég hluti sem eru mér ekki samboðnir og kvartað var yfir. Ég sé mikið eftir þessu og vil axla ábyrgð á gjörðum mínum með því að segja mig úr stjórninni. Bankinn er í söluferli þar sem mikilvægt er að vel takist til,“ segir jafnframt í bréfi Jakobs.

Jakob starfar sem lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og situr auk þess í stjórn Solid Clouds og Jakás. Áður starfaði hann meðal annars hjá Straumi fjárfestingarbanka, fyrst sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs frá 2011 til 2013 og síðar sem forstjóri frá 2013 til 2015.

Hann var kjörinn í stjórn Arion banka á hluthafafundi í marsmánuði í fyrra.

Arion banki tilkynnti fyrr í mánuðinum að hann hefði i hyggju að efna til útboðs á hlutabréfum í bankanum og skrá bréfin í kauphöll á Íslandi og í Svíþjóð. Er stefnt að því að útboðið fari fram í næsta mánuði að því gefnu að markaðsaðstæður leyfi.