Linda Fanney Valgeirsdóttir er framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækisins Alor. Hún fór í 100 fjallgöngur á síðasta ári og þykir fátt betra en að hefja daginn á fjallgöngu eða hlaupatúr.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég elska að ganga á fjöll með fjölskyldunni minni, besta gönguhópnum „Árangur áfram, ekkert stopp“ og öðrum góðum vinum. Á síðasta ári fór ég í 100 fjallgöngur og hélt utan um það myndbandsdagbók, eina sekúndu úr hverri göngu. Ég leyfi mér að fullyrða að það jafnast ekkert á við gott spjall og hláturs­köst í fersku fjallalofti. Svo syng ég með 70 vinkonum mínum í Kvennakórnum Kötlu sem er kvenbætandi félagsskapur og mikil orkugjöf í hverri viku.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Á bestu dögunum, sem þó eru færri en hinir, lauma ég mér út í fjallgöngu eða í hlaupatúr á meðan fólkið mitt sefur enn. Svo kem ég heim og fer langleiðina með að ganga fram af fjölskyldunni með ofurjákvæðni og gleði í morgun­sárið. Á klassískum morgni klukkan 7.30 fer vel smurt tannhjól af stað hjá okkur hjónum við að koma litlum konum á fætur, undirbúa nesti og halda uppi almennri gleði. Þegar þeim línudansi er lokið fæ ég mér Cheerios og fer sjálf af stað í vinnuna eða sest við eldhúsborðið og byrja vinnudaginn.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Sú sem kemur fyrst upp í hugann er bókin Eyland eftir Sigríði Hagalín. Í bókinni hefur Ísland algjörlega einangrast frá umheiminum. Smátt og smátt hverfa réttindin og siðmenningin og gagnrýnin hugsun er barin niður. Það er svo margt í þessari bók sem sat eftir hjá mér og var mér hugleikið á Covid-tímum.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum?

Ég tók við starfi framkvæmdastýru Alor í nóvember með góða og fjölbreytta reynslu á bakinu en þar sem ég hef ekki byggt upp nýsköpunarfyrirtæki áður tóku við mörg krefjandi verkefni. Ég steig í raun inn í nýjan heim sem ég þekkti ekki og upplifði óöryggi á meðan ég var að fóta mig. Ég sá að eina leiðin til þess að yfirstíga þessa áskorun væri að læra mjög hratt. Það gerði ég með því að sanka að mér dýrmætum fróðleik frá reyndum frumkvöðlum, fjárfestum og ráðgjöfum. Það hefur fleytt mér ótrúlega langt á stuttum tíma og er ég þessum aðilum ævinlega þakklát fyrir ómetanlega aðstoð.

Ef þú þyrftir að velja annan starfsframa, hvað yrði fyrir valinu?

Ef ég þyrfti að skipta myndi ég velja að vinna við textavinnslu á auglýsingastofu með Braga Valdimar. Ég hef löngum séð það starf í hillingum og með honum held ég að hugarflugsfundirnir séu gríðarlega skemmtilegir og skapandi. Við myndum fara í gott flæði og enda á lausnum sem enginn héldi vatni yfir!

Hver er þín uppáhaldsborg?

Ég fór núna síðast til Madríd í fyrsta sinn og féll fyrir þeirri borg. Fegurðin er einstök og svo er skipulag borgarinnar afar skemmtilegt. Þrátt fyrir að hafa fengið stóra skrúfu í pitsunni minni á einum veitingastaðnum þá þykir mér samt mjög vænt um þessa borg og hlakka til að fara þangað aftur.

Helstu drættir

Nám: Lögfræði við Háskóla Íslands.

Störf: Síðast starfaði ég sem staðgengill skrifstofustjóra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en þar á undan í velferðarráðuneytinu, hjá ADVEL lögmönnum, á lögfræðisviði Arion banka og hjá Rauða krossinum.

Fjölskylduhagir: Gift Jóhannesi Birni Arelakis og við eigum saman tvo meistara, Karólínu Bríeti 10 ára og Steinunni Diljá 7 ára.