Lang­flestum af þeim hundrað sem sagt var upp í Arion banka í morgun var gert að hætta sam­dægurs, og var vísað út að loknu sam­tali við mann­auðs­deild bankans. Afar þungt hljóð er í starfs­fólki þessa stundina.

Líkt og greint var frá í morgun á­kvað stjórn Arion banka að fara í um­fangs­miklar skipu­lags­breytingar, lagði niður tvö svið og sagði upp eitt hundrað starfs­mönnum.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sendi starfsfólki bréf í morgun þar sem hann sagði daginn í dag verða erfiðan. Hins vegar hafi þurft að ráðast í þessar breytingar.
Fréttablaðið/Ernir

„Þeim sem munu hætta í dag verður til­kynnt það svo fljótt sem auðið er. Þetta verður erfiður dagur fyrir okkur öll, ekki síst þá sem starfa í höfuð­stöðvunum þar sem breytingarnar verða mestar,“ sagði Bene­dikt Gísla­son banka­stjóri í tölvu­pósti til starfs­manna, sem sendur var skömmu eftir að Kaup­höll var til­kynnt um breytingarnar.

Í fram­haldinu tóku við ein­stak­lings­sam­töl og fólki vísað út í fram­haldinu. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá bankanum var öryggis­gæsla í dag ekki aukin.

Upp­sögnin tekur gildi 1. októ­ber og er upp­sagnar­frestur mis­jafn, sumir með þrjá mánuði á meðan þeir sem hafa starfað lengur hjá bankanum fá lengri frest.