Íslenska hönnunamerkið FÓLK Reykjavík og norski dreifingaraðilinn Brunt Hus hafa gert með sér dreifingarsamning á vörum fyrirtækisins í Noregi. Brunt Hus mun starfa sem umboðsmaður FÓLKs; markaðsetja, og veita þjónustu í tengslum við sölu á vörum fyrirtækisins til norskra hönnunarverslana. Brunt Hus veitir öflugum Norrænum vörumerkjum samsvarandi þjónustu á norska markaðnum, segir í tilkynningu.

FÓLK er íslenskt hönnunarmerki sem þróar, framleiðir og markaðssetur íslenska hönnun með sjálfbærni að leiðarljósi. Fyrstu vörur FÓLK Reykjavík komu í íslenskar verslanir árið 2017 og eru vörunúmer fyrirtækisins nú um 40 talsins. Vörur FÓLKs eru seldar hér á landi í verslunum á borð við Epal, Módern, Geysi Heima, Kokku og Hrím auk verslana í Belgíu, Þýskalandi og Bretlandi.

Sókn erlendis

Á árinu 2019 hefur FÓLK Reykjavík einbeitt sér að því að byggja upp sölu á mörkuðum erlendis. FÓLK tók þátt í hönnunarvikunni í París tvisvar á árinu, nú síðast í September og á húsgagnasýningunni í Stokkhólmi í febrúar, þar sem tengsl við dreifingar- og söluaðila var aðal markmiðið. FÓLK tók einnig mikilvægt skref nú nýverið með því að færa vörulager sinn til Evrópu til að styðja sölu og dreifingu í álfunni. Samstarf við fleiri dreifingar- og söluaðila eru í pípunum sem væntingar eru um að muni leiða til verulegrar aukningar í sölu og framleiðslu fyrirtækisins á nýju ári, en samningurinn við Brunt Hus á að geta á skömmum tíma margfaldað fjölda sölustaða FÓLKs.

„Við höfum hafið vaxtarfasa eftir góðan undirbúning og vöruþróun undanfarin ár á Íslandi. Þessi samningur er mikilvægt skref í því og við erum ánægð að koma okkar samfélagsábyrgu vörum á kröftugan hátt á framfæri hjá frændum okkar í Noregi með hjálp öflugs dreifingaraðila eins og Brunt Hus,” segir Ragna Sara Jónsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri FÓLK Reykjavík.

Fagufræði og hringrás

„Við sjáum samstarf okkar við FÓLK Reykjavík sem náttúrulegt skref í þróun okkar fyrirtækis. Við höfum verið að leita að því að styrkja okkar áherslur á sviði samfélagsábyrgra hönnunarfyrirtækja í okkar safni af vörumerkjum. Samspil fagurfræði hönnunar FÓLK og þeirra markmið að styðja hringrásarahagkerfið í framleiðslu, gerir það að samstarfið passar fullkomlega áherslum okkar til framtíðar,“ segir Jo Henning Kolstad, meðeigandi hjá Brunt Hus AS.

Stofnað af Rögnu Söru

FÓLK er íslenskt hönnunarmerki, stofnað af Rögnu Söru Jónsdóttur árið 2017, sem hefur sjálfbærni að leiðarljósi í framleiðsluferlinu, allt frá hönnun- og vöruþróun yfir í framleiðslu, notkun og endurvinnslu. Markmið FÓLKs er að auka hlutfall íslenskrar hönnunar sem kemst á markað hérlendis og erlendis. Fólk vinnur með völdum hönnuðum og hefur nú þegar þróað og framleitt sínar vörur í samstarfi við vöruhönnuðina Jón Helga Hólmgeirsson, Ólínu Rögnudóttur og Theodóru Alfreðsdóttur.

BRUNTHUS er reyndur norskur dreifingaraðili í Noregi fyrir valið safn Norrænna hönnunarmerkja eins og Moebe, Cooee, Darling Clementine, Lucie Kaas and Tangent GC.