Ársfundur Berkshire Hathaway fór fram á dögunum, en þar hefur Warren Buffett haldið um taumana í áratugi. Viðburðurinn á að mörgu leyti meira sameiginlegt með rokktónleikum en hefðbundnum aðalfundum, og er þar Buffett sjálfur aðalnúmerið. Karlinn situr í pontu, með Cherry Coke í dós, og tekur við spurningum úr sal. Hlustað er eftir hverju orði og þau greind í tætlur af viðstöddum fjölmiðlamönnum.

Á fundinum í síðustu viku þótti einna merkilegast þegar Buffett var spurður að því hvað honum fyndist um óháða stjórnarmenn, það er að segja stjórnarmenn í félögum sem sjálfir eiga ekkert undir annað en launatékkann í félaginu. Sem fyrr var karlinn snöggur til svars. Hann taldi slíkt fólk til mikillar óþurftar og að það væri beinlínis hættulegt ef aðalhvati stjórnarmanns væru stjórnarlaunin sjálf. Með því yrði til hópur af „þægum“ stjórnarmönnum sem spyrðu ekki erfiðra spurninga og reyndu að ganga í augun á stjórnendum félaga með framgöngu sinni, enda væri það vísasta leiðin til að halda sætinu.

Athyglisvert er að velta þessu fyrir sér í íslensku samhengi. Hér eru langflest skráð félög að langstærstum hluta í eigu stofnanafjárfesta á borð við lífeyris- og fjárfestingasjóði. Fyrir hönd þessara aðila situr svo fólk í stjórnum sem sjaldan á persónulegra hagsmuna að gæta. Á tímum tilnefningarnefnda virðist það svo regla frekar en undantekning að sjálfkjörið sé í stjórnir á aðalfundum sem fram fara einu sinni á ári. Nú skal ekki gert lítið úr óháðum stjórnarmönnum. Það getur vissulega verið gott að hafa margs konar þekkingu við borðið, t.d. sérfræðiþekkingu í lögfræði, endurskoðun, fasteignum og svo mætti áfram telja. Æskilegt er hins vegar að einkafjárfestum sé hleypt að borðinu. Þeir fjárfesta á eigin verðleika og finna fyrir hverri krónu sem fer til spillis í rekstri félags. Fólk þekkir það af heimilisbókhaldinu að enginn hugsar betur um peninga þína og eignir en þú sjálfur.

Auðvitað eigum við að leita að hinu gullna jafnvægi í þessum efnum. Í kerfi eins og okkar þar sem einkafjárfestar eru fáir þarf því að greiða götu þeirra að stjórnarborðinu þar sem þeir eru þó fyrir hendi. Um það ættu allir að geta verið sammála, enda tilgangurinn með fjárfestingum að ávaxta sitt pund. Þar fara hagsmunir einkafjárfesta og stofnanafjárfesta saman. Þeir síðarnefndu ættu því að gleðjast yfir áhuga þeirra fyrrnefndu.