Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands segist ekki geta tjáð sig um hvernig það myndi bregðast við ef Alþýðusamband Íslands og VR beittu neitunarvaldi í gegnum stjórnir lífeyrissjóða til þess að koma í veg fyrir fjárfestingar sjóðanna í Icelandair Group.

Markaðurinn greindi frá því á miðvikudag að Icelandair gæti látið reyna á kjarasamningsákvæði fyrir félagsdómi, svo unnt væri að ráða flugfreyjur sem standa utan Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ), ef ekki næðust samningar við stéttarfélagið.

Sama dag hafnaði FFÍ lokatilboði Icelandair. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, sagði í kjölfarið að ekki yrði komist lengra í viðræðum við FFÍ og nú þyrfti að skoða aðrar leiðir. Á hluthafafundi Icelandair í dag verður tekin afstaða til hlutafjárútboðs.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sögðu ljóst að verkalýðsfélögin, sem eiga helming stjórnarsæta í almennu lífeyrissjóðunum, stærstu hluthöfum Icelandair Group, myndu beita neitunarvaldi til að koma í veg fyrir að sjóðirnir leggðu Icelandair til meira fjármagn ef flugfélagið myndi semja fram hjá FFÍ.

„Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands getur því miður ekki tjáð sig um hvernig það myndi bregðast við í ákveðnum ímynduðum aðstæðum,“ segir í svari fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn Markaðarins.

Fjármálaeftirlitið hefur áður séð ástæðu til þess að brýna fyrir verkalýðsleiðtoga að stjórnarmönnum lífeyrissjóða sé óheimilt að veita sér fyrir því að sjóðirnir séu nýttir í öðrum tilgangi en þeim sem samræmist lögum.

Ragnar Þór hjá VR velti upp þeim möguleika í fjölmiðlum í nóvember 2018 að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í stjórnum lífeyrissjóðanna skrúfuðu fyrir fjárfestingar á meðan kjarasamningar væru lausir.

Fjármálaeftirlitið sendi í kjölfarið út tilkynningu þar sem bent var á að lífeyrissjóðum væri óheimilt að stunda aðra starfsemi en að veita lífeyri viðtöku, varðveita hann, ávaxta og greiða út. Jafnframt bæri stjórn lífeyrissjóðs ábyrgð á því að starfsemi sjóðsins væri í samræmi við lögin. Fjármálaeftirlitið hefði eftirlit með því hvort starfsemi lífeyrissjóðs væri að einhverju leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust.

„Með hliðsjón af framangreindu telur Fjármálaeftirlitið að stjórnarmönnum lífeyrissjóða sé óheimilt að beita sér fyrir því að lífeyrissjóðir séu nýttir í öðrum tilgangi en þeim sem að framan var lýst,“ kom fram í tilkynningu eftirlitsins í nóvember 2018.