Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur skráð First North markað Nasdaq sem Vaxtarmarkað lítilla og meðalstórra fyrirtækja (e. SME Growth Market) sem er ný tegund af markaðstorgi sem kom til sögunnar með MiFID II Evrópuregluverkinu. Hafa þessar reglur þegar tekið gildi á öðrum mörkuðum Nasdaq á Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Flest fyrirtæki hér á Íslandi sem og annarsstaðar í Evrópu flokkast sem smá og meðalstór fyrirtæki en þau eru hvað mikilvægust fyrir vöxt og atvinnusköpun í hverju samfélagi fyrir sig,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. „Skráning Nasdaq First North sem Vaxtarmarkaður lítilla og meðalstórra fyrirtækja er mikilvæg breyting fyrir íslensk fyrirtæki sem huga að vexti, þar sem nú er búið að sníða regluverkið betur að þörfum þeirra og draga úr skriffinnsku, án þess að það komi niður á fjárfestavernd. Þetta er því mjög jákvætt skref í átt að betra fjármögnunarumhverfi fyrir slík fyrirtæki og við erum fullviss um að þetta geri markaðinn að enn betri vettvangi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að afla fjármagns og vaxa.”

Evrópusambandið hefur verið að stíga skref í þá átt að gera skráningu á almenningsmarkaði (e. public markets) meira aðlaðandi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, með vísan til þeirra jákvæðu áhrifa sem fylgja því að fleiri vaxtarfyrirtæki noti hlutabréfamarkaði til að sækja sér fjármagn. Vaxtarmarkaðir eru ein varða á þeirri vegferð. Til að hljóta skráningu sem vaxtarmarkaður lítilla og meðalstórra fyrirtækja þarf minnst 50 prósent félaga á markaðnum að flokkast sem lítil og meðalstór fyrirtæki, út frá skilgreiningu Evrópusambandsins (undir 200 milljón evrum að markaðsvirði).

„Nasdaq First North hefur verið einn öflugasti markaðurinn fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í Evrópu undanfarin ár og eftir nokkrar vel heppnaðar skráningar hér á landi hefur áhugi fyrirtækja, ráðgjafa og fjárfesta á skráningum íslenskra vaxtarfyrirtækja aldrei verið meiri,“ segir Magnús.