Innlent

FME krefst úrbóta hjá Kortaþjónustunni

Fjármálaeftirlitið krefst þess að Kortaþjónustan slíti sambandi við þrjá viðskiptavini. Framkvæmd áreiðanleikakannana á erlendum viðskiptamönnum samræmdist almennt ekki þeim kröfum sem gerðar eru í lögum.

Fjármálaeftirlitið gerir margvíslegar athugasemdir við framfylgni Kortaþjónustunnar við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Fréttablaðið/Stefán

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur gert margvíslegar athugasemdir við eftirlit Kortaþjónustunnar með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og krefst þess að færsluhirðingarfyrirtækið grípi til viðeiganda úrbóta. Framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar segist taka athugasemdum eftirlitsins mjög alvarlega.

Niðurstaða athugunar FME, sem hófst í apríl í fyrra og beindist að framfylgni fyrirtækisins við lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vegna færsluhirðingar þess erlendis, var meðal annars sú að framkvæmd áreiðanleikakannana á erlendum viðskiptamönnum Kortaþjónustunnar hefði almennt ekki samræmst þeim kröfum sem gerðar eru í lögum. Var þess krafist að félagið myndi binda enda á viðskiptasamband við þrjá viðskiptavini sem lentu í úrtaki eftirlitsins.

Þess ber að geta að þrátt fyrir að niðurstaða athugunarinnar hafi legið fyrir í síðasta mánuði byggðist athugunin á gögnum og upplýsingum miðað við stöðuna eins og hún var árið 2017, meðal annars gögnum og upplýsingum um aðila sem teknir voru í viðskipti á árinu 2016.

Eins og kunnugt er keypti fjárfestingabankinn Kvika og hópur einkafjárfesta Kortaþjónustuna á aðeins eina krónu í byrjun nóvember á síðasta ári.  

Samtímis kaupunum lagði fjárfestahópurinn félaginu til nærri 1.500 milljónir í nýtt hlutafé en Kortaþjónustan stóð frammi fyrir alvarlegum lausafjárvanda í kjölfar greiðslustöðvunar Monarch í byrjun október.

Jóhannes Ingi Kolbeinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri færsluhirðingarfyrirtækisins, og eiginkona hans, Andrea Kristín Jónsdóttir, voru áður stærstu hluthafar fyrirtækisins en auk þess átti Gunnar M. Gunnarsson, sem stýrði hugbúnaðarsviðinu, hlut í því.

Jóhannes Ingi Kolbeinsson lét af störfum sem framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar í byrjun ársins.

FME tók úrtak fimm viðskiptamanna Kortaþjónustunnar af lista yfir tuttugu stærstu erlendu viðskiptamenn félagsins árið 2016.

Eftirlitið gerði athugasemdir við að fyrirtækið  hefði ekki sýnt fram á að framkvæmd áreiðanleikakannana hjá þeim viðskiptamönnum sem lentu í úrtakinu hefði fullnægt skilyrðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Kortaþjónustan hafði þegar slitið viðskiptasambandi við tvo þeirra sem lentu í úrtakinu, en Fjármálaeftirlitið gerði kröfu um að félagið myndi binda enda á viðskiptasamband við hina þrjá. Þá gerði eftirlitið athugasemd við að í tilviki tveggja viðskiptamanna af fimm, hefði fyrirtækið ekki greitt fyrstu greiðslu inn á reikning viðskiptamannsins.

FME tekur þó fram að þegar athugunin hófst hafði fyrirtækið þegar breytt verklagi í þeim tilgangi að uppfylla þessa kröfu laganna.

FME gerði frekari athugasemdir, meðal annars um að fyrirtækið hefði almennt ekki sinnt með fullnægjandi hætti reglubundnu eftirliti með samningssambandi við viðskiptamenn, að það hefði ekki gripið til ráðstafana til að sinna með fullnægjandi hætti rannsóknarskyldu sinni og mögulegri tilkynningarskyldu vegna viðskipta sem grunur leikur á að rekja megi til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka og að það hefði auk þess ekki séð til þess að starfsmenn fengju fullnægjandi þjálfun í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Sjá tilkynningu FME í heild sinni hér.

Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar

„Við tökum athugasemdum FME mjög alvarlega og höfum sett í forgang að laga öll þau atriði koma fram í skýrslu FME,“ segir Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar.

„Við viljum vera til fyrirmyndar í allri starfsemi og ætlum okkur nokkrar vikur í nauðsynlegar úrbætur. Að því loknu munum við fá óháðan aðila til að fara yfir þá vinnu og staðfesta gagnvart FME.

Það er stutt síðan Kortaþjónustan hóf að bjóða þjónustu á erlendum markaði og oft misstíga byrjendur sig í upphafi. Við ætlum okkur að læra af mistökunum og bæta það sem þarf að laga. Við teljum okkur geta verið í fremstu röð með greiðsluþjónustu og tæknilausnir sem við bjóðum viðskiptavinum,“ nefnir Björgvin Skúli.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Ingi­mundur lætur af for­mennsku ISAVIA

Innlent

Sam­eining lækkaði kostnað Festar um hálfan milljarð

Innlent

Rétt­lætis­mál að af­nema banka­skattinn

Auglýsing

Nýjast

Big Short-fjár­festir veðjar gegn bönkum í Kanada

Arnar Gauti tekur við af Guð­brandi

Norwegian refsað harðar en Boeing á mörkuðum

Upp­bygging Vestur­bugtar í upp­námi

Icelandair hækkar enn í kjöl­far WOW-vand­ræða

Festi kaupir hlut í Íslenskri orkumiðlun

Auglýsing