Fjármálaeftirlitið hefur ákveðið að Arion banki skuli viðhalda viðbótareiginfjárkröfu sem nemur 3,1 prósentum af áhættugrunni, sem er hækkun um 0,2 prósentustig frá fyrra mati.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka til Kauphallarinnar en Fjármálaeftirlitið leggur árlega mat á áhættuþætti í starfsemi kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja. Ferlið felur m.a. í sér mat á eiginfjárþörf fjármálafyrirtækja

Viðbótarkrafan kemur til vegna útlána-, mótaðila- og samþjöppunaráhættu og markaðs- og fastvaxtaáhættu, auk áhættu vegna dótturfélaga og lagaáhættu, sem ekki var nægjanlega tekið tillit til við útreikning á grunnkröfu um eiginfjárgrunn.

Hækkun sveiflujöfnunarauka samkvæmt ákvörðun FME í febrúar 2019 mun taka gildi fyrir íslenskar fjármálastofnanir í febrúar 2020 og við það hækkar eiginfjárkrafan í 20,3 prósent að öðru óbreyttu.

Í nýlegu viðtali við Markaðinn sagði Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, að það eina sem stæði í vegi fyrir því að Ísland yrði lágvaxtaríki væru háar eiginfjárkvaðir á bankana.

„Það sem bankarnir hafa gert, að einhverju marki, er að þeir hafa tekið á sig þessar auknu kröfur sem endurspeglast þá í lægri arðsemi þeirra. Þær breytingar sem hafa orðið á regluverki og sköttum á fjármálafyrirtæki síðasta áratug hafa leitt til þess að vaxtaálag á útlánum til fyrirtækja þyrfti að ríflega tvöfaldast ef við ætluðum að ná sömu arðsemi og fyrir þá innleiðingu,“ sagði Benedikt.

„Bankarnir hafa hins vegar kosið að gera það ekki og það hefur bitnað á afkomunni. En það gengur ekki upp til lengdar. Á endanum munu bankarnir draga úr þessari starfsemi, af því að þeir eru ekki samkeppnisfærir, og fjármögnun til stærri fyrirtækja færist í auknum mæli á skuldabréfamarkað eða vaxtaálag hækkar og arðsemi bankanna batnar.“

Leiðrétting: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar kom fram að eiginfjárkröfur á Íslandsbanka stæðu óbreyttar. Hið rétta er að þær lækkar um 0,5 prósent frá fyrri ákvörðun hjá Íslandsbanka.