Þórey Vilhjálmsdóttir er framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Empower, sem hefur þróað gervigreindardrifinn hugbúnað sem ætlað er að aðstoða mannauðsstjóra við að tryggja jafnrétti og fjölbreytni á vinnustöðum.

Þórey segir hugmyndina hafa fæðst árið 2017 þegar hún starfaði hjá Capacent. „Þá vorum við að horfa á að gera allsherjar stefnumótun og vitundarvakningu fyrir jafnrétti,“ segir hún. „Ég var búin að vera að vinna sem stjórnunarráðgjafi,“ segir Þórey. Hún segist hafa fundið vaxandi eftirspurn eftir leiðum til að taka á jafnrétti, umfram launin eingöngu, þar sem fleiri breytur væru teknar til greina.

Áhrif Metoo-hreyfingarinnar

Haustið 2017 reyndist örlagaríkt þegar MeToo-hreyfingin fór af stað með hvelli. „Þá varð gríðarleg eftirspurn eftir leiðum til þess að vinna gegn eitraðri menningu og stefna að heilbrigðari vinnustaðamenningu, með jafnrétti að leiðarljósi,“ segir hún.

Þórey Vilhjálmsdóttir er framkvæmdastjóri Empower og segir Metoo hafa skapað gríðarlega eftirspurn eftir lausn á borð við þá sem fyrirtækið býður upp á.
Mynd/Ólafur Már Svansson

Á þeim tíma var verkefnið aðeins að byrja og segist Þórey hafa unnið að þróuninni með Landsvirkjun, á þeim tímapunkti. „Við kynntum verkefnið til sögunnar rétt áður en fyrsta MeToo-bylgjan fór af stað, þannig að við vorum bara tilbúin með lausn,“ segir hún og bætir við að tímasetningin hafi einfaldlega verið ótrúleg.

Þórey stofnaði Empower sumarið 2020, í félagi við Dögg Thomsen, eftir jákvæða reynslu af lausninni á íslenskum markaði. Var þá stefnan tekin á þróun sem fært gæti lausnina út fyrir landsteinana. „Ísland er mjög framarlega í jafnrétti og ég segi stundum að við séum skást í heimi,“ segir Þórey.

Hún minnir þó á að sigur í jafnréttismálum sé alls ekki unninn. „Við eigum langt í land. En við höfum fundið það á jafnréttisráðstefnum erlendis að það er verið að horfa mikið til Íslands,“ segir hún. „Það er lógískt að við séum með lausnir til að bjóða umheiminum, varðandi hvernig megi bæta stöðuna.“

Hluti teymisins sem stendur að Empower, í opnunarhófi nýrra höfuðstöðva Empower við Lækjargötu.
Mynd/Ólafur Már Svansson

Þegar heimsfaraldurinn skall á vorið 2020 breytti það markaðsumhverfi tæknigeirans. „Þessi stafræna þróun fór á ljóshraða í Covid, sem gaf okkur tækifæri til að skoða nýjar leiðir til að miðla okkar aðferðafræði. Þá fórum við af stað með þróun stafrænnar lausnar fyrir jafnrétti og fjölbreytni. Þetta er heildræn lausn.“

Mælaborð fyrir stjórnendur

Þórey segir fyrirtækið styðjast við ákveðna mælikvarða sem þau viti að skipti fyrirtækin máli. Mælikvarðarnir séu byggðir á þeirra eigin módeli og aðferðafræði sem þau setja síðan inn í hugbúnaðinn. „Til að geta náð utan um jafnrétti og fjölbreytni,“ segir hún. „Við erum að búa til heildræna sýn og mælaborð fyrir stjórnendur. Svo erum við með gervigreind inni í forritinu okkar,“ segir Þórey.

„Þá hafa fyrirtækin sett sér ákveðin markmið sem eru byggð á þessum mælikvörðum, og svo mælir gervigreindin hvað ber á milli. Þá erum við með fræðslu í hugbúnaðinum fyrir viðkomandi fyrirtæki, og sjáum hvar mæðir mest á að fræða,“ segir Þórey og minnir á að eina leiðin til þess að ná mælikvörðum varðandi jafnrétti og fjölbreytni sé að breyta hegðun og viðhorfi.

Við erum að búa til heildræna sýn og mælaborð fyrir stjórnendur.

„Við gerum það. Þetta er kallað örfræðsla, og þá erum við að fræða í gegnum síma. Hvert námskeið hjá okkur er tvær til fimm mínútur í einu, kannski þrisvar yfir einhvern tíma. Þetta eru mjög litlir skammtar og mjög áhugaverð og skemmtileg fræðsla. Við leggjum mikla áherslu á það og höfum alltaf gert, og höfum alltaf náð að miðla okkar fræðslu á einfaldan og skilvirkan máta.“

Er ekki málið með svona fræðslu að þeir sem sækja hana þurfa hana síst?

„Jú, en ég myndi segja að ég hafi ekki hitt það fyrirtæki enn þá sem þarf ekki fræðsluna. Þá komum við aftur að því að vera skást í heimi.“

Fjármögnun gekk vel

Fjármögnun gekk vonum framar. Empower fékk fjármögnun í vor frá Frumtaki upp á 250 milljónir, og frá englasjóðinum Tenninn upp á 50 milljónir.

„Það skiptir okkur öllu máli af því að nú erum við í þróunarvinnu og erum að þróa hugbúnaðinn okkar. Við erum að setja hann á alþjóðlegan markað á þriðja ársfjórðungi 2023 og verðum komin með frumgerð núna í lok janúar. Það er mjög spennandi. Þá ætlum við að fara til Bandaríkjanna og Evrópu.“

Aðspurð hvort finna megi sambærilegar lausnir á markaði, svarar Þórey að vissulega séu til tengdar lausnir. „En ekki svona heildrænar eins og okkar. Það er það sem við sjáum sem okkar tækifæri,“ segir hún. „Við Íslendingar erum framarlega í að hugsa um jafnrétti og erum að horfa á fleiri breytur sem annar hugbúnaður er ekki með. Svo er þetta samhengi og gervigreind í okkar hugbúnaði, sem hjálpar mannauðsstjóranum að hugsa þetta þrjú hundruð og sextíu gráður.“

Empower opnaði nýjar höfuðstöðvar á dögunum og hélt innflutningspartý af því tilefni. Myndir úr veislunni má skoða hér að neðan.

Mynd/Ólafur Már Svansson
Mynd/Ólafur Már Svansson
Mynd/Ólafur Már Svansson
Mynd/Ólafur Már Svansson
Mynd/Ólafur Már Svansson
Mynd/Ólafur Már Svansson
Mynd/Ólafur Már Svansson
Mynd/Ólafur Már Svansson
Mynd/Ólafur Már Svansson
Mynd/Ólafur Már Svansson
Mynd/Ólafur Már Svansson
Mynd/Ólafur Már Svansson