Flybus Keflavík sækir frá og með næstu viku farþega á þrjú hótel í Reykjanesbæ alla morgna og flytur að flugstöðinni og hefst þjónustan kl. 04:45. Hótelin sem um ræðir eru Hótel Keflavík, Park Inn og Courtyard by Marriott.

Með þessari þjónustu býðst flugfarþegum hagkvæmur og umhverfisvænn kostur til að komast í flug, en bæði erlendir ferðamenn og þeir Íslendingar sem kosið hafa að velja gistinótt í Reykjanesbæ í aðdraganda utanlandsferða, hafa hingað til þurft að reiða sig á leigubíla eða greiða bílastæðagjald fyrir einkabíl sinn í einhvern tíma, til að komast á flugvöllinn. Flybus Keflavík leysir þann vanda.

Frítt er fyrir farþega yngri en 5 ára í Flybus Keflavík, 6-15 ára greiða 749 krónur og farþegar eldri en 16 ára greiða 1.499 krónur fyrir akstur að flugstöðinni.

Reykjavík Excursions er hluti af samstæðu ICELANDIA, sem er miðstöð ferðalausna og upplifana á Íslandi og rekur uppruna sinn allt aftur til ársins 1968, en fyrirtækin sinna ferðamönnum með heildstæðri en ólíkri þjónustu sem nær allt frá rútuferðum til sérsniðinna ævintýraferða.