Flybe segir að flugfélagið sé enn í rekstri eins og áður. Yfirlýsingin birtist eftir fréttaflutning um að stjórnendur stæðu í ströngu við að forða félaginu frá gjaldþroti. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Sky News segir að stjórnendur Flybe eigi í viðræðum um að afla aukins fjármagns til að mæta vaxandi taprekstri. EY er sagt til taks ef það þurfi að taka við þrotabúi flugfélagsins. Breska ríkistjórnin hefur verið upplýst um stöðu mála.

„Flybe heldur áfram að veita frábæra þjónustu og tengingar fyrir viðskiptavini okkar á sama tíma og við tryggjum að þeir geti ferðast eins og vonir stóðu til. Við tjáum okkur ekki um orðróma eða getgátur,“ segir í yfirlýsingu.

Fréttirnar berast tæpu ári eftir að Connect Airways – samtarf Virgin Atlantic, Stobart Air og Cyrus Capital – forðaði Flybe frá gjaldþroti.

Connect Airways greiddi 2,8 milljónir punda fyrir reksturinn og 2,2 milljónir punda fyrir móðurfélagið eða um 1 pens á hlut. Flugfélagið hafði áður sagt að það væri vonbrigði hve lágt það verð væri.

Flybe hefur verið í rekstri frá árinu 1979 og flytur um átta milljónir farþega á ári á milli 71 flugvallar í Evrópu. Fari flugfélagið á höfuðið eru 2.400 störf í hættu, segir í frétt Financial Times.