PLAY flutti 109.937 far­þega í júlí, sem er 25 prósenta aukning frá mánuðinum áður þegar 87.932 far­þegar flugu með PLAY. Fjöldi far­þega í júlí 2022 er meiri en saman­lagður fjöldi allra far­þega sem PLAY flutti á árinu 2021.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá fé­laginu en alls var sæta­nýting fé­lagsins 87,9 prósentum í júlí saman­borið við 78,2 prósent í júní og 69,6 prósent í maí.

Á­fanga­staðir fé­lagsins eru alls 25 og kemur fram í til­kynningunni að í júlí hafi verið flogið í fyrsta sinn á alla þá á­fanga­staði sem höfðu verið aug­lýstir.

Með sex þotur í flugi

Sjötta þota PLAY, Air­bus A320neo, kom til Ís­lands um síðustu mánaða­mót og flutti sína fyrstu far­þega í júlí. PLAY er nú með þrjár Air­bus A321neo og þrjár Air­bus A320neo í rekstri, sem er í sam­ræmi við rekstrar­á­ætlun og flota­stefnu fé­lagsins. Þá fær fé­lagið fjórar A320/321 til við­bótar næsta vetur, sem mun gera fjölda Air­bus-þota hjá fé­laginu tíu talsins vorið 2023.

„Það er frá­bært að sjá svona marga nýja á­fanga­staði og tengi­flugið okkar yfir At­lants­hafið á fullum af­köstum. Leiða­kerfið okkar er komið á fullan skrið og flytur sögu­legan fjölda á­nægðra við­skipta­vina í hverjum mánuði. Í júlí vorum við á mjög góðri leið með stund­vísina þrátt fyrir baga­legar að­stæður á flug­völlum. Við lítum á það sem af­rek. Hver kostnaðar­eining (án elds­neytis) er enn undir fjórum banda­rískum sentum, elds­neytis­verð fer lækkandi, tekju­einingin fer hækkandi og bókunar­staðan er afar góð. Það hefur verið virki­lega hvetjandi að fá að taka þátt í þessu ferli og verða vitni að þeim mikla lið­sanda og fag­mennsku sem ein­kennir alla mína sam­starfs­menn. Allt þetta fyllir mig af eld­móði og eftir­væntingu fyrir komandi mánuðum og fram­tíð PLAY. Hún er björt,“ segir Birgir Jóns­son, for­stjóri PLAY.