Skila­dagar Ís­lands­pósts fyrir pakka­sendingar frá landinu og innan­lands eru allir fyrr á ferðinni í ár en önnur ár vegna CO­VID-19. Sesselía Birgis­dóttir, fram­kvæmda­stjóri þjónustu og markaðar hjá Ís­lands­pósti, segir að þau biðli til fólks að sýna fyrir­hyggju og þolin­mæði. Það sé mikið álag hjá þeim um þessar mundir.

„Það er mjög ó­venju­legt á­stand og sér­stak­lega til og frá landinu. Það hafa verið þessir öruggu skila­dagar áður en þar sem það er ekkert öruggt í heiminum í dag erum við að mælast til þess að fólk verði tíman­lega á ferðinni. Einnig svo það sé hægt að dreifa á­lagi og röðum,“ segir Sesselía í sam­tali við Frétta­blaðið í dag.

Seinasti skiladagur innanlands 18. desember

„Ef fólk vill vera öruggt að ná gjöfum til sinna ást­vina utan Evrópu þá er gott að koma ekki síðar en 27. nóvember sem er í þessari viku. Innan Evrópu er það 7. desember,“ segir Sesselía.

Hún segir að fólk megi búast við röðum víða vegna sam­komu­tak­markanna inni á póst­húsunum.

„Við mælumst líka til þess að fólk fari inn á postur.is, skrái sendingarnar sínar inn á Skrá pakkar. Þannig gengur af­greiðsla hraðar fyrir sig og styttir bið­tíma og raðir mjög mikið,“ segir Sesselía.

Hún segir að ef fólk vilji vera öruggt með sendingar pakka innan­lands þá séu þau að miða við síðasta skila­dag sem 18. desember.

Sesselía segir að skila­dagarnir séu allir fyrr á ferð í ár en áður og það sé bein af­leiðing kórónu­veirufar­aldursins.

„Það tekur allt lengri tíma í heiminum og við biðlum því til okkar við­skipta­vina að gefa sér lengri tíma og byrja fyrr. Þetta eru for­dæma­lausir tímar sem kalla á fyrir­hyggju,“ segir Sesselía.

Fólk þarf að vera tímanlega ætli það að koma pökkum til ástvina sinna fyrir jólin.
Fréttablaðið/Getty

Vinna allan sólarhringinn

Hún segir að það sé of­boðs­lega mikið álag á starfs­fólk póstsins, bæði vegna jóla­asarinnar en einnig vegna mikillar aukningar á net­verslun.

„Það er um 100 til 120 prósenta aukning á þessum vikum. Í nóvember er yfir 100 prósent aukning í net­verslun innan­lands. Við erum líka undir miklum fjölda­tak­mörkunum þannig það er ekki hægt að hafa fleira starfs­fólk inni,“ segir Sesselía.

Hún segir að í póst­mið­stöðinni þeirra sé yfir­leitt talið að vinnslu­getan sé á hverjum degi um sjö þúsund sendingar en að þær hafi undan­farna daga verið allt frá 11 til 15 þúsund á hverjum degi.

„Það er unnið á nóttunni og allan sólar­hringinn. Með alls­konar snjöllum út­færslum vinnum við okkur upp í þetta magn en það tekur allt lengri tíma og við biðlum til fólks að sýna þessu þolin­mæði. Maður breytir ekki inn­viðum eða tækni á einum sólar­hring en við munum vinna þetta allt fyrir jól. Það er unnið alla daga og við munum lengja opnunar­tíma á póst­húsum og þjónustu­verum. Það eru allir í þessu saman að reyna að koma þessu til skila,“ segir Sesselía.

Póstboxin mjög vinsæl

Hún segir að þau séu einnig að bæta aðra þjónustu þeirra eins og póst­boxin og pakka­port sem eru stað­sett á bensín­stöðvum. Hún segir að fólk geti farið inn á minn­postur.is og valið sér­póst­box sem svo er opið allan sólar­hringinn.

„Þau eru of­boðs­lega vin­sæl og við erum að biðla til fólks að sækja eins fljótt og það getur. Það er búið að vera bið­röð í póst­box undan­farna daga. Við hlöðum á þau mörgum sinnum á dag. Þarna er snerti­laus af­hending. Þau eru öll stað­sett úti og opin allan sólar­hringinn og það er hægt að velja sjálf hvaða box fólk vill fá af­hent í,“ segir Sesselía og bætir við:

„Við biðlum til fólks að sýna fyrir­hyggju og gefa þessu lengri tíma. Flutnings­leiðir til og frá landinu eru skertar og það er nauð­syn­legt að hafa það í huga.“