Flutningskostnaður sem dreifiveitur raforku þurfa að greiða Landsneti hækkaði um tæplega þriðjung á föstu verðlagi á árunum 2011 til 2019. Hækkandi rekstrarkostnaður vegna dreifingu raforku hækkar tekjumörk dreifiveitna og þar af leiðandi verð til neytenda.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Analytica um forsendur tekjumarka og gjaldtöku innlendra dreifiveitna á raforku. Skýrslan var unnin að beiðni Samtaka iðnaðarins, en framkvæmdastjóri samtakanna segir nauðsynlegt að breyta raforkulögum hið fyrsta svo hagsmuna notenda sé betur gætt.

Flutningskostnaður og tekjumörk Landsnets hafa verið nokkuð til umræðu á undanförnum mánuðum. Tekjumörk Landsnets eru ákvörðuð með lögum. Landsneti hefur verið legið á hálsi fyrir að njóta meiri arðsemi af starfsemi sinni en ætla mætti hjá opinberu fyrirtæki í sérleyfisstarfsemi, en dæmi eru um að arðsemi eigin fjár fyrirtækisins hafi verið yfir 20 prósentum á undanförnum árum.

Rekstur dreifiveitna á borð við RARIK, Veitur og HS Veitur er að ákveðnu leyti sambærilegur við Landsnet, með tilliti til þess að tekjumörk þeirra ráðast af rekstrarkostnaði. Það er að segja, þegar rekstrarkostnaður dreifiveitna hækkar, þá hækka tekjumörk þeirra í kjölfarið og þar af leiðandi heimildir til verðhækkana.

Fram kemur í skýrslunni að leyfð tekjumörk dreifiveitna hækkuðu um 12,2 prósent umfram almennar verðlagshækkanir á árunum 2011 til 2019, en þá hækkun má að langmestu leyti rekja til hækkandi gjaldskrár Landsnets og þar með rekstrarkostnaðar þeirra fyrirtækja sem dreifa raforku til heimila og smærri fyrirtækja.

Nýlegasta dæmið um samspil gjaldskrár Landsnets og tekjumarka dreifiveitna er frá því í desember síðastliðnum. Þá tilkynnti Landsnet að gjaldskrá til RARIK, HS Orku og annarra dreifiveitna myndi hækka um 9,9 prósent á árinu 2021. Í byrjun janúar tilkynnti RARIK svo að gjaldskrá myndi hækka um 2,8 prósent til allflestra viðskiptavina fyrirtækisins.

Samkvæmt samantekt Byggðastofnunar lá raforkukostnaður íslenskra heimila á bilinu 80 til 120 þúsund krónur á ári að meðaltali árið 2019.


Tvítalning vaxtakostnaðar


Fram hefur komið að aðferð Orkustofnunar við að meta veginn fjármagnskostnað Landsnets, sem myndar grundvöll verðskrár fyrirtækisins, kunni að vera ábótavant. Sérstök nefnd á vegum Orkustofnunar áætlar þennan vegna fjármagnskostnað.

Bent hefur verið á að notkun breyta á borð við tíu ára hlaupandi meðaltal af skuldatryggingarálagi Íslands við útreikning fjármagnskostnaðar Landsnets, gefi skakka mynd af og ofmeti raunverulegan vaxtakostnað Landsnets, enda var skuldatryggingarálag Íslands í hæstu hæðum í allmörg ár eftir hrun fjármálamarkaða 2008.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Tekjumörk dreifiveitna eru ákvörðuð með sambærilegum hætti og Landsnets, þar sem nefnd á vegum Orkustofnunar ákvarðar tekjumörk og leyfða arðsemi. „Svo virðist sem allar ákvarðanir sem teknar hafa verið til breytingar á matsbreytum [vegna leyfðrar arðsemi dreifiveitna] á tímabilinu leiði til hækkunar á vegnum fjármagnskostnaði,“ segir í skýrslu Analytica.

Hingað til hefur nefnd Orkustofnunar sem vélar um þessi mál notað tíu ára vísitölu verðtryggðra ríkisskuldabréfa til viðmiðunar við ákvörðun vaxtaálags. Skýrsluhöfundar benda á að á árabilinu 2008 til 2016 voru eingöngu bréf Íbúðalánasjóðs inni í þeirri vísitölu. Því megi leiða líkur að því að áhættuálag Íbúðalánasjóðs hafi verið óskert innan vísitölunnar um langt skeið, sem leiðir af sér ofmat á áhættuálagi. Hins vegar voru bréf Íbúðalánasjóðs ekki fjarlægð úr vísitölunni fyrr en í janúar á síðasta ári.

Þar sem nefnd Orkustofnunar notast við tíu ára hlaupandi meðaltal við ákvörðun vaxtaálags dreifiveitna mun þessa ofmats á vaxtakostnaði að óbreyttu gæta næsta áratuginn eða svo, sem mun leiða af sér hærri verðskrá en ella.


Segir breytinga þörf


„Mikilvægt er að stjórnvöld grípi strax til breytinga á raforkulögum, til þess að rétta af þann halla á samkeppnishæfni Íslands á sviði raforkumála sem núverandi meinbugir á sviði tekjumarka og gjaldtöku sérleyfisfyrirtækja er að valda, en af nýlegum skýrslum og úttektum er ljóst að sérleyfisstarfsemi er sá þáttur virðiskeðju raforku sem nauðsynlegt er að breyta,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Hann segir jafnframt að óbreytt fyrirkomulag feli í sér að gjaldtaka þessara fyrirtækja er hærri en raunveruleg efni standa til, jafnt til heimila sem og atvinnulífs.

Sigurður bendir einnig á að núverandi fyrirkomulag sé eingöngu til þess fallið að þjóna hagsmunum sérleyfisfyrirtækja sem annast flutning og dreifingu raforku á kostnað notenda: „Á síðastliðnum árum hefur lækkandi vaxtastig í landinu ekki endurspeglast með þeim hætti sem er eðlilegt í verðskrá fyrirtækjanna sem annast rekstur raforkuinnviða landsins.

Þannig dregur skýrsla Analytica fram og styður við þá skoðun Samtaka iðnaðarins að það óhagræði sem núverandi fyrirkomulag felur í sér hvað varðar breytingar á forsendum tekjumarka er notendum í óhag. Það lýsir sér með þeim hætti að þegar vextir hækka, en tíu ára meðaltalið lækkar, þá mun forsendum verða breytt hvort eð er og þá ávallt sérleyfisfyrirtækjunum í hag á kostnað hagsmuna notenda. Því er ljóst að forsendur og fyrirkomulag núverandi kerfis þjóni ávallt hagsmunum sérleyfisfyrirtækja og því þarf að breyta.“

Ráðgjafarfyrirtækið Deloitte vinnur nú að greiningu um leyfða arðsemi, fjármagnskostnað og rekstrarkostnað sérleyfisfyrirtækja á raforkumarkaði. Skýrslan er unnin að beiðni iðnaðarráðuneytisins, en tilkynnt var um skýrslugerðina sama dag og skýrsla þýska fyrirtækisins Fraunhofer um samkeppnishæfni íslensks raforkumarkaðar var birt.