Ráðgert er að flugvélafloti Play stækki úr þremur í níu fyrir sumarið 2023. Þá er félagið langt á veg komið í viðræðum um leigu á tíundu flugvélinni. Kjör á þessum samningum eru betri en gert var ráð fyrir í viðskiptaáætlunum félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fyrri viljayfirlýsingin er vegna tveggja nýrra A320neo flugvéla af 2020 árgerðinni. Flugvélarnar verða afhentar á fyrsta ársfjórðungi 2022.

Seinni viljayfirlýsingin er vegna þriggja A320neo flugvéla og einnar A321neo sem koma í rekstur vorið 2023. Vélarnar eru nýjar og verða afhentar beint frá Airbus fyrir milligöngu flugvélaleigusalans. Fréttatilkynning

Þessar ráðstafanir gera Play kleift að nýta hagstæð kjör sem bjóðast við núverandi markaðsaðstæður vegna COVID-19. Play verður þannig með sex flugvélar í flotanum vorið 2022 þegar félagið hefur flug vestur um haf.

Fyrsti heili mánuður Play í flugrekstri var vel heppnaður og markmið fyrirtækisins um öryggi, áreiðanleika og ánægju viðskiptavina náðust. Tíðar breytingar á ferðatakmörkunum af hálfu stjórnvalda og ný bylgja kórónuveirunnar hér á landi í júlí hafði þó óneitanlega neikvæð áhrif á eftirspurn meðal íslenskra farþega, segir í tilkynningunni.

Viðskiptavinir nýttu sér hins vegar sveigjanlega breytingaskilmála og endurskipulögðu ferðalög sín í nokkrum mæli. Fyrir Play þýddi þetta flutning en ekki tap á tekjum.

Í júlí flutti félagið 9.899 farþega og sætanýting var 41,7 prósent. Ágúst sýndi jákvæð teikn og miðasala jókst á ný. Sætanýting í ágúst var 46,4 prósent og Play flutti rúmlega 17.300 farþega, nærri tvöfalt fleiri en í júlí. Tölurnar endurspegla vaxandi eftirspurn íslenskra viðskiptavina í kjölfar fækkandi COVID-19 tilfella. Útlit er fyrir að sætanýting í september muni aukast enn frekar, annan mánuðinn í röð.