Stjórnvöld í Dubaí eru búin að bjóða flugfélaginu Emirates fjárhagslega aðstoð til að standa af sér kórónaveirufaraldurinn sem hefur stöðvað allt áætlunarflug félagsins.

Flugfélagið er í eigu ríkisins og tilkynnti krónprinsinn í Dubaí, Sheikh Hamdan bin Mohammed á Twitter í dag að Emirates ætti von á fjárhagsaðstoð frá ríkinu til að komast í gegnum þessa erfiðu tíma.

Emirates er eitt af stærstu flugfélögum heimsins með 270 flugvélar á sínum snærum og sætisframboð upp á rúmlega 78 milljónir sæta. Áætlað er að flugfélög muni tapa um 252 milljörðum bandaríkjadala á faraldrinum.

Yfirvöld í Sameinuðu arabísku furstadæmunum lokuðu landamærum sínum á dögunum og er flugfyrirtækið því aðeins í fraktflutningum þessa dagana.