Þrátt fyrir að nýir hugbúnaðargallar hafi fundist í Boeing 737 Max flugvélunum, sögðu flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum (FAA) í dag á fundi í London að flugprófanir á vélunum myndu hefjast á næstu vikum.
Steve Dickinson, stjórnandi hjá FAA, sagði að alþjóðlegar eftirlitsstofnanir væru nálægt því að komast um samkomulagi um það hvað þyrfti að klára áður en vélarnar fái að fara aftur í loftið. Hann væri jafnframt sannfærður um það að lagfæringarnar yrðu mjög traustar.
Dickinson sagði hins vegar líka frá því að nýr galli í hugbúnaði vélarinnar hefði fundist. Viðskiptavefurinn Investor‘s Business Daily hefur í frétt sinni eftir heimildamönnum að sá galli tengist viðvörunum á kerfi sem hjálpar til við að lyfta og lækka nefi vélarinnar.
Þann galla þarf að lagfæra áður en Max vélarnar fá að fara aftur í rekstur en óvíst er hvort að það komi til með að hafa mikil áhrif á áætlanir um endurkomu vélanna. Boeing hefur gefið það út að fyrirtækið búist við því að vélarnar verði komnar aftur í loftið um mitt þetta ár.
Fréttir af því að nýr galli hefði fundist í vélunum náðu ekki að yfirskyggja orð Dickinson um að flugprófanir hefjist bráðlega, því að hlutabréf í Boeing hækkuðu um 3,6 prósent eftir að orð Dickinson spurðust út.