Þrátt fyrir að nýir hug­búnaðar­gallar hafi fundist í Boeing 737 Max flug­vélunum, sögðu flug­mála­yfir­völd í Banda­ríkjunum (FAA) í dag á fundi í London að flug­prófanir á vélunum myndu hefjast á næstu vikum.

Ste­ve Dickin­son, stjórnandi hjá FAA, sagði að al­þjóð­legar eftir­lits­stofnanir væru ná­lægt því að komast um sam­komu­lagi um það hvað þyrfti að klára áður en vélarnar fái að fara aftur í loftið. Hann væri jafn­framt sann­færður um það að lag­færingarnar yrðu mjög traustar.

Dickin­son sagði hins vegar líka frá því að nýr galli í hug­búnaði vélarinnar hefði fundist. Við­skipta­vefurinn Investor‘s Business Daily hefur í frétt sinni eftir heimilda­mönnum að sá galli tengist við­vörunum á kerfi sem hjálpar til við að lyfta og lækka nefi vélarinnar.

Þann galla þarf að lag­færa áður en Max vélarnar fá að fara aftur í rekstur en ó­víst er hvort að það komi til með að hafa mikil á­hrif á á­ætlanir um endur­komu vélanna. Boeing hefur gefið það út að fyrir­tækið búist við því að vélarnar verði komnar aftur í loftið um mitt þetta ár.

Fréttir af því að nýr galli hefði fundist í vélunum náðu ekki að yfir­skyggja orð Dickin­son um að flug­prófanir hefjist bráð­lega, því að hluta­bréf í Boeing hækkuðu um 3,6 prósent eftir að orð Dickin­son spurðust út.