Fé­lags­menn Fé­lags ís­lenskra at­vinnu­flug­manna (FÍA) hafa sam­þykkt nýjan kjara­samning sem samninga­nefnd fé­lagsins skrifaði undir við Icelandair á föstu­daginn 15. maí. Rúm­lega 96 prósent þeirra fé­lags­manna sem greiddu at­kvæði um samninginn voru hlynntir honum.


Samningurinn gildir til 1. desember 2025. At­kvæða­greiðslu fé­lags­manna FÍA lauk í dag og var þátt­taka fé­lags­manna um 96 prósent að sögn formannsins Jóns Þórs Þor­valds­sonar. 96,22 prósent þeirra sem kusu sögðu já við samningnum, 2,6 prósent sögðu nei en 1,18 prósent tók ekki af­stöðu.


Jón Þór segir skila­boð fé­lags­manna skýr. Eins og greint hefur verið frá felur samningurinn í sér aukið vinnu­fram­lag flug­manna, sem á að tryggja aukinn sveigjan­leika til þróunar á leiða­kerfi Icelandair.


Flug­virkjar sam­þykktu sinn kjara­samning á mið­viku­daginn í at­kvæða­greiðslu en for­maður Flug­virkja­fé­lags Ís­lands vildi ekki gefa upp hvert hlut­fall þeirra sem kusu með samningnum var en sagði meiri­hlutann af­gerandi. Kjara­við­ræða Icelandair og flug­freyja er enn í hnút.