Atvinnuflugmenn eiga hátt í þriggja prósenta hlut í Icelandair Group eftir hlutafjárútboð flugfélagsins. Það er til viðbótar við eignarhlut Eftirlaunasjóðs félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA) sem nemur um einu prósenti. Þetta segir Sturla Ómarsson, stjórnarformaður EFÍA og frambjóðandi til stjórnar Icelandair.

„Það er ljóst að kostnaðurinn er að smitast á milli ársfjórðunga og lausnin við því er að nýta innviði félagsins betur.“

„Það er gaman að segja frá því að flugmenn eiga líklega á bilinu 2 til 3 prósent í félaginu og af þeim eru um 85 prósent í uppsögn. Það sýnir trú flugmanna á fyrirtækinu, framtíð þess og viljann til að taka þátt í uppbyggingunni,“ segir Sturla.

Sturla, sem hefur meistaragráðu í fjármálum, hefur starfað hjá Icelandair í um aldarfjórðung og lengst af sem flugstjóri. Þá hefur hann setið í stjórn EFÍA í ellefu ár og þar af átta ár sem stjórnarformaður. Hann tekur þó fram að framboðið sé alfarið á hans eigin vegum en ekki lífeyrissjóðsins.

„Ég þekki reksturinn út og inn, og tel að það sé gott að hafa rödd við stjórnarborðið sem víkkar og dýpkar umræðurnar,“ segir Sturla, sem hefur í gegnum tíðina sinnt margs konar greiningarvinnu á flugmarkaðinum. Að hans mati eru ýmis vannýtt tækifæri í rekstri Icelandair.

„Árstíðasveiflur Icelandair eru of ýktar. Sveiflur á milli stærsta og minnsta ársfjórðungsins hvort sem horft er til tekna eða framleiðslu hafa slagað upp í 140 prósent en kostnaður sveiflast ekki jafn mikið. Það er ljóst að kostnaðurinn er að smitast á milli ársfjórðunga og lausnin við því er að nýta innviði félagsins betur. Þar eru áhafnir ekki undanskildar,“ segir Sturla.

Samkvæmt heimildum Markaðarins sagði Sturla á kynningarfundum vegna framboðsins með stórum hluthöfum Icelandair að ná mætti allt að 40 prósenta betri nýtingu á áhöfnum.

sturla ómarsson1.png

„Ef þú ert með árstíðasveiflu sem slagar upp í allt að 140 prósent og kostnaður smitast milli tímabila, er ljóst að það er umtalsverður sparnaður fólginn í því að nýta innviði félagsins betur,“ ítrekar Sturla, spurður um umfang þess sem gæti sparast.

Eigendur að samtals 53 prósentum hlutafjár munu hafa atkvæðisrétt á aðalfundi Icelandair Group sem fer fram á fimmtudaginn. Frambjóðendur sem komust ekki á lista tilnefningarnefndar félagsins náðu ekki að knýja fram margfeldiskosningu og mun því stjórnarkjörið vera með hefðbundnum hætti. Án margfeldiskosningar verður erfiðara fyrir nýja frambjóðendur að komast í stjórn.