Atkvæðagreiðsla flugfreyja um kjarasamning þeirra og Samtaka Atvinnulífsins vegna Icelandair stendur nú yfir.

Opnað var fyrir atkvæðagreiðsluna klukkan 16 í dag og hafa flugfreyjur tæpa viku til að greiða atkvæði rafrænt í gegnum FFÍ appið.

Samningurinn var kynntur flugfreyjum á Hilton Nordica hótelinu þann 26. júní síðastliðinn.

Flugfreyjufélag Íslands og Icelandair skrifuðu undir samninga aðfaranótt 25. júní eftir að fundað hafði verið stíft í nokkrum lotum. Samningar hafa verið lausir frá því í janúar 2019 og mun nýi kjarasamningurinn gilda til 30. september 2025 verði hann samþykktur.

Forsvarsmenn Icelandair hafa sagt samninginn í samræmi við þau markmið sem lagt var upp með um að auka vinnuframlag og sveigjanleika fyrir félagið en á sama tíma verja ráðstöfunartekjur flugfreyja og flugþjóna.

FFÍ segist hafa frá upphafi þessara löngu og flóknu samningalotu fundið til ábyrgðar og sýnt mikinn samningsvilja. Helsta áhersluatriði samninganefndarinnar var að standa vörð um starfsöryggi flugfreyja og flugþjóna. Staða B-freyja helst óbreytt en það var eitt helsta baráttumálið.