Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir að flugfélagið sé hægt og bítandi að færast nær því sem var fyrir faraldurinn. Flugframboð á þriðja ársfjórðungi hafi verið um 50 prósent af framboðinu á sama fjórðungi 2019 og hlutfallið á fjórða fjórðungi sé um 65 prósent . „Við erum svo að sjá fram á að næsta ár verði framboðið allt að 80 prósent af því sem það var árið 2019, þannig að við höldum uppbyggingunni áfram og færumst nær og nær eðlilegum rekstri, eins og hann var fyrir faraldurinn,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Vika er síðan Bandaríkin opnuðu landamæri sín fyrir bólusettum. Fljótlega eftir að dagsetningin var tilkynnt jók Icelandair sætaframboðið til Bandaríkjanna.

Spurður út í afstöðu Icelandair til takmarkana á landamærum hér á landi segir Bogi Nils ljóst að ferðaþjónustan og hagkerfið verði fyrir tjóni vegna þess að bólusettir ferðamenn þurfi að skila neikvæðu prófi. Þá bendir hann á að ekkert af okkar nágrannaríkjum krefji bólusetta ferðamenn um slík próf og telur hann víst að það myndi breyta miklu ef bólusettir þyrftu ekki að skila slíku prófi.