Flug­fé­lög heimsins þurfa að minnsta kosti 70 til 80 milljarða Banda­ríkja­dala, allt að 10.400 milljarða króna, til við­bótar vegna á­hrifa kórónu­veirufar­aldursins á rekstur þessara fé­laga.

Þetta er mat Alexandre de Juniac, fram­kvæmda­stjóra Al­þjóða­sam­bands flug­fé­laga. Hann segir í sam­tali við BBC að þessi upp­hæð þurfi að koma til við­bótar við þá 170 milljarða Banda­ríkja­dala sem flug­fé­lög hafa þegar fengið í að­stoð síðan far­aldurinn fór af stað á síðasta ári. 290 flug­fé­lög í 120 löndum eru aðilar að fé­laginu.

Brúar bilið þar til í sumar

Juniac segir að aukin opin­ber að­stoð myndi brúa bilið þar til í júní fyrir þau fjöl­mörgu flug­fé­lög sem eru í vanda. Á­ætlanir gera víða ráð fyrir að þá verði hægt að af­létta ferða­tak­mörkunum að ein­hverju leyti og á sama tíma aukist eftir­spurn eftir flug­ferðum.

Sam­kvæmt tölum sam­bandsins minnkaði eftir­spurn eftir flugi um 60% á síðasta ári. Var heildar­fjöldi far­þega um 1,8 milljarðar en var 4,5 milljarðar árið 2019. Ekki hefur öllum flug­fé­lögum tekist að halda flugi í þessu á­standi og segir de Juniac að 35-40 flug­fé­lög hafi farið á hausinn í far­aldrinum.

Mörg þessara fé­laga eru til­tölu­lega lítil, til dæmis breska flug­fé­lagið Flybe sem fór á hausinn í mars síðast­liðnum. Stærri flug­fé­lög hafa einnig lent í miklum vand­ræðum, til dæmis Thai Airwa­ys og South Af­ri­can Airwa­ys sem eru í hópi þeirra flug­fé­laga sem hafa þurft að treysta á ríkis­að­stoð.

Milljónir starfa í húfi

de Juniac segist reikna með að fleiri flug­fé­lög fari á hausinn á næstu mánuðum og þess vegna sé mikil­vægt að ríki í heiminum komi til að­stoðar áður en í harð­bakkann slær. Bendir hann á að það muni á endanum koma far­þegum til góða, meðal annars í formi lægri far­gjalda vegna sam­keppni á markaði. Þá bendir de Juniac á að 65 milljónir starfa tengist flug­bransanum á einn eða annan hátt.