Alþjóðlegi fluggeirinn þarf á stuðningi upp á allt að tvö hundruð milljörðum dala að halda til þess að standa af sér erfiðleikana sem útbreiðsla kórónaveirunnar veldur flugfélögum. Þetta er mat alþjóðasamtaka flugfélaga, IATA.

Samtökin sögðu í gær að flest flugfélög í heiminum glímdu við alvarlegan lausafjárvanda í kjölfar þess að stjórnvöld víða um heim vöruðu við eða takmörkuðu ferðalög á milli landa.

Brian Pearce, aðalhagfræðingur IATA, segir í samtali við Financial Times að aðeins um þrjátíu flugfélög hafi borið uppi arðsemi fluggeirans síðustu tíu ár. „Nokkur flugfélög eru augljóslega í mun betri stöðu til að standa af sér tekjutap af þessari stærðargráðu, en meirihlutinn er í mjög brothættri stöðu,“ nefnir hann.

Flugfélög víða um heim hafa á síðustu dögum kyrrsett stóran hluta af flota sínum og boðað uppsagnir á þúsundum starfsmanna til þess að bregðast við vandanum sem blasir við geiranum.

Til marks um erfiðleikana lækkaði Moody’s í gær lánshæfiseinkunn flugfélaganna easyJet og Lufthansa og sagðist ætla að endurskoða til lækkunar einkunnir British Airways og móðurfélags þess, IAG.

Sérfræðingar IATA telja að flugfélög muni þurfa á innspýtingu upp á samanlagt 150 til 200 milljarða dala að halda, auk ríkistryggingar, til þess að lifa næstu vikur og mánuði af.