Kanadíska flug­fé­laginu Air Canada var á dögunum gert að greiða rúma fimm­tán þúsund dollara og senda af­sökunar­beiðni til frönsku­mælandi pars fyrir endur­tekin brot á tungu­mála­lög­gjöf þar í landi, að því er fram kemur á vef CNN.

Kærði parið, þau Michel og Lynda Thi­bodeau flug­fé­lagið árið 2016 og gerðu at­huga­semdir í 22 liðum. Kvartaði parið meðal annars undan því að orðið „lift,“ á ís­lensku „lyfta,“ á sætis­beltinu þeirra væri einungis á ensku en ekki frönsku.

Þá stað­hæfðu þau að franskar þýðingar fyrir orðin „exit“ (í. „út­gangur“) og „warning“ (í. „við­vörun)“ væru í minni letur­gerð heldur en ensku orðin og að lokum kvörtuðu þau undan því að til­kynningar um inn­göngu í flug­vélina hefðu inni­haldið færri ítar­upp­lýsingar á frönsku.

Færði parið fyrir því rök að flug­fé­lagið bryti þar með á á lögum í Kanada sem segja að enska og franska verði að njóta sömu stöðu í landinu og féllst rétturinn á það.

Kemur fram í um­fjöllun CNN að þetta sé ekki í fyrsta skiptið sem að parið kvarti undan flug­fé­laginu en árið 2009 fékk parið engar bætur eftir að hafa kvartað yfir því að ekki væri næg þjónusta til staðar á frönsku í aal­þjóða­flugum flug­fé­lagsins.