Flugfélagið Ernir hefur gert samkomulag við innviðaráðuneytið um flug til Eyja þrisvar sinnum í viku. Tvö þeirra verða á þriðjudögum og eitt á föstudögum. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Erni.
Ný áætlun tekur gildi í upphafi nýs árs en í kringum hátíðirnar verður flugið með öðrum hætti. Fyrsta flugið verður næsta föstudag og kemur fram í tilkynningunni að samkomulaginu sé ætlað að greiða fyrir betri samgöngum til og frá eyjunni yfir vetrartímann en að ekki sé enn sem komið er hægt að hefja aftur flug þangað aðeins á markaðslegum forsendum, eins og segir í tilkynningunni.
„Að mati ráðuneytisins var því talið nauðsynlegt að tryggja tímabundið lágmarksþjónustu á flugi til og frá Vestmannaeyjum í vetur á meðan markaðslegar forsendur eru ekki til staðar, enda flugið mjög mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf í Vestmannaeyjum,“ segir í tilkynningunni.
Áætlunarflugi flugfélagsins Ernis til Vestmannaeyja var hætt í september 2020 vegna minni eftirspurnar.
„Það er því mikið fagnaðarefni að félagið hafi möguleika á að þjónusta svæðið aftur og vonandi er hægt að byggja upp flug til og frá Vestmannaeyjum til frambúðar og með fleiri flugferðum í viku hverri. Félagið hlakkar mikið til að hefja sig til flugs á Eyjar og vonast eftir að sem flestir geti nýtt sér þjónustuna þó um lágmarksflug sé að ræða tímabundið,“ segir að lokum í tilkynningunni.