Samfélagsmiðillinn Twitter er í ótryggri stöðu og spurningar verða sífellt háværari varðandi getu fyrirtækisins til að halda áfram rekstri. Hundruð starfsmanna hafa sagt upp störfum síðustu daga eftir póst sem eigandi fyrirtækisins, Elon Musk, sendi starfsmönnum á miðvikudag.

Í póstinum setti eigandinn starfsfólkinu þá kosti að vinna langa vinnudaga af mikilli elju eða láta af störfum. Hann bað fólkið vinsamlegast að halda áfram að fylgja stefnu fyrirtækisins og forðast að ræða trúnaðarupplýsingar tengdar fyrirtækinu á samfélagsmiðlum, við fjölmiðla eða annars staðar.

Öllum skrifstofum fyrirtækisins var í framhaldinu læst fram á mánudag.

Meðal þeirra sem hafa sagt upp störfum eru lykilpersónur úr starfsliði fyrirtækisins sem séð hafa um rekstur mikilvægra kerfa. Samkvæmt heimildum The Washington Post er nokkur hluti kerfa alfarið án eftirlits sem stendur.

Fjöldi notenda hefur hafið undirbúning og flutning yfir á önnur og sambærileg kerfi og er samfélagsmiðillinn Mastodon meðal þeirra sem oftast eru nefndir í því samhengi.

Þá hafa margir þegar afritað gögn og yfirgefið miðilinn. Þar á meðal eru frægir einstaklingar með gríðarlegan fjölda fylgjenda, meðal annarra fyrirsætan Gigi Hadid, sem lokaði reikningi sínum eftir tíu ár á miðlinum.