Í viðtölum við Financial Times rétt fyrir jól gagnrýndu Morten Baltzersen, forstjóri Fjármálaeftirlits Noregs, og Jesper Berg, kollegi hans í Danmörku, harðlega umfang og flækjustig regluverks fjármálamarkaða.

„Alþjóðlega fjármálakrísan 2008 réttlæti flóknari reglur til að loka glufum og bregðast við því hve samtengdar fjármálastofnanir voru orðnar,“ sagði Baltzersen. „Með tímanum hefur kólfurinn hins vegar sveiflast of langt í átt til aukins flækjustigs.“

Berg sagði: „Þetta er of mikið og hættan er að fólk gleymi sér í smáatriðum í stað þess að vera á verði gagnvart raunverulegri áhættu.“

Alþjóðlegar reglur um starfsemi banka voru endurskoðaðar eftir fjármálakrísuna og munar þar mest um samkomulagið um Basel III sem jók stórlega kröfur um eiginfjárhlutföll banka og mælti fyrir um mun meiri árvekni eftirlitsaðila gagnvart áhættu. Nýjasta útgáfa reglnanna er 1.626 blaðsíður að lengd.

Innan ESB eru nú meira en 80 tilskipanir um fjármálastarfsemi í gildi. Reglurnar ná einnig til aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins, þar á meðan Noregs og Íslands. Þeirra á meðal eru tillögur á nokkur hundruð blaðsíðum um lögfestingu Basel reglnanna innan ESB.

Á evrusvæðinu skiptist fjármálaeftirlit milli fjármálaeftirlita hvers lands og Evrópska Seðlabankans.

Morten Baltzersen, forstjóri Fjármálaeftirlits Noregs.

Baltzersen, sem hefur stýrt norska Fjármálaeftirlitinu síðan 2011. Þar starfa 300 manns við eftirlit með margs konar fjármálastarfsemi, allt frá bönkum og endurskoðunarstofum til fasteignasala. Hann segir flókar reglur um bankastarfsemi hafa í för með sér að eftirlitsaðilar séu verr í stakk búnir til að sinna eftirliti vegna þess hve mikill tími fari í að framfylgja flóknum reglum og lögfræðikarp.

Eftirlitsaðilar eigi jafnframt á hættu að „sjá ekki skóginn fyrir trjánum“ og koma þannig ekki auga á raunverulega áhættu sem byggist upp í fjármálakerfinu og á mörkuðum vegna þess að þeir séu að framfylgja svo mörgum reglum, að sögn Baltzersens. Þá séu fyrirmælin sem felist í evrópsku regluverki svo nákvæm að sífellt minna svigrúm gefist fyrir sjálfstætt mat eftirlitsaðila sem sé ómissandi hluti markviss eftirlits.

„Flækjustig hefur aukist en skynsemin ekki,“ bætti hann við. Til dæmis væri sú ákvörðun ESB að gera vægari eiginfjárkröfur til banka sem lána til lítilla og meðalstórra fyrirtækja dæmi um útvötnun reglna sem ynni gegn fjármálastöðugleika.

Jesper Berg, forstjóri Fjármálaeftirlits Danmerkur.

Berg sagði að danska Fjármálaeftirlitið gæti ekki fylgst með innleiðingu flókinna reglna ESB og sinnt á sama tíma sínu grunnhlutverki sem er að tryggja öryggi danska fjármálakerfisins. Hann sagði stofnun sína beita áhættumiðaðri nálgun þar sem ekki væri endilega reynt að framfylgja öllum smáatriðum reglna ef ekki væri álitið að þau tækju til þátta sem valda áhættu.

„Ég reikna með að flestir eftirlitsaðilar innan ESB, og þá sérstaklega hinir minni, hafi á undanförnum árum nálgast þetta svona fremur en út frá einhverri bókstafstrú. Miklu meiri nákvæmni er beitt gagnvart stórum alþjóðlegum bönkum en smærri fjármálastofnunum,“ bætti hann við.

Berg sagði sökina á flóknu regluverki að hluta til liggja hjá bönkunum sjálfum þar sem þeir hefðu þrýst á um nýjar reglur í sína þágu.

„Bankarnir eru ekki sakleysingjar í þessum efnum,“ sagði hann. „Allir vilja þeir regluverk sem hentar þeirra eigin styrkleikum.“

Hluti vandans stafar af þeirri ákvörðun ESB að láta Basel reglurnar gilda um alla banka en ekki einungis þá stærri eins og raunin er í Bandaríkjunum.

Isabelle Vaillant, framkvæmdastjóri varfærniseftirlits og stefnumörkunar hjá Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni, sem gefur út samræmdar bankareglur fyrir ESB og EES sagðist almennt ekki hafa áhyggjur af „of-eftirliti“ en að stofnunin ynni að því að gera reglurnar „aðgengilegri og auðframkvæmanlegri“ fyrir áhættuminni og einfaldari banka.

Baselnefndin um bankaeftirlit hefur einnig hafið endurskoðun á regluverki sínu með það fyrir augum að einfalda það.

Embættismaður hjá Framkvæmdastjórn ESB sagði að flókið regluverk væri „að vissu marki óhjákvæmilegt“ í ljósi þess hve flókin fjármálavísindi væru orðin.

„Við gerum okkur grein fyrir því að halda verður rekstrarlegu álagi vegna regluverks í lágmarki,“ bætti embættismaðurinn við. „Þetta er hins vegar kostnaðurinn við að tryggja heilbrigt fjármálakerfi … Regluverk ESB er endurskoðað reglulega. Ef þörf krefur munum við breyta reglunum.“