Flóki Halldórsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis, verður forstöðumaður skrifstofu skilavalds Seðlabanka Íslands, samkvæmt heimildum Markaðarins, en öðrum umsækjendum um starfið hefur verið tilkynnt um ráðninguna.

Skilavald er nýtt stjórnvald sem hefur með höndum undirbúning og framkvæmd skilameðferðar lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Þótt skilavaldið sé vistað innanhúss hjá Seðlabanka Íslands er það aðskilið öðrum verkefnum bankans. Markmiðið með því er að tryggja skilvirkni aðgerða, sjálfstæði og komast hjá hagsmunaárekstrum innan bankans.

Flóki, sem lét af störfum sem framkvæmdastjóri Stefnis í fyrra, var kjörin í stjórn Íslandsbanka í mars á þessu ári.

Staða forstöðumanns skilavalds Seðlabankans var auglýs laust til umsóknar í byrjun september og bárust sextán umsóknir.

Auk Flóka voru umsækjendur um starfið meðal annars Páll Eiríksson, lögmaður og fyrrverandi meðlimur í slitastjórn Glitnis, Einar Örn Gíslason, sérfræðingur hjá Englandsbanka, Gunnar Viðar, einn eigenda á lögmannsstofunni LEX, Matthías H. Johannessen, fyrrverandi framkvæmdastjóri Actavis, og Pétur Örn Sverrisson, lögmaður og ráðgjafi gamla Landsbankans um árabil.