Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans í morgun. Velta í virðisaukaskattsskyldri atvinnustarfsemi hér á landi nam alls 936 milljörðum. í september og október í fyrra samkvæmt nýlega birtum gögnum Hagstofu Íslands og jókst um 19 prósent milli ára miðað við fast verðlag. Þetta er fjórða uppgjörstímabilið í röð sem vöxtur mælist milli ára eftir samfellt samdráttarskeið allt frá miðju ári 2019. Nokkuð snarpur viðsnúningur virðist því hafa átt sér stað upp úr miðju síðasta ári þar sem kröftugur vöxtur tók við af samdrættinum sem rekja mátti til minni eftirspurnar vegna faraldursins.

September og október 2021 var fjórða uppgjörstímabilið í röð sem virðisaukaskyld velta eykst eftir samfelldan samdratt frá því fyrir Covid.

Atvinnugreinar rétta margar hverjar úr kútnum

Séu fyrstu 10 mánuðir ársins 2021 bornir saman við sama tímabil árið 2020 mælist 13 prósenta raunvöxtur milli ára í allri virðisaukaskattsskyldri veltu. Sé aftur á móti miðað við árið 2019, fyrir faraldur, mælist veltan nokkuð svipuð að raunvirði, eða 0,3 prósentum minni. Hagfræðingar Landsbankann telja sig sjá vísbendingar um að almennt séu atvinnuvegir að rétta nokkuð vel úr kútnum og komast á sama stað og var fyrir faraldur, þótt þróunin sé mjög ólík eftir einstaka atvinnugreinum. Mestu munar hjá fyrirtækjum sem starfa í ferðaþjónustu. Þar mælist samdráttur 63 prósent milli ára sé miðað við fyrstu 10 mánuði ársins 2019 en 74 prósenta vöxtur milli áranna 2020 og 2021.

Misjafnt er eftir atvinnugreinum hve velta breytist milli tímabila.

Smásala hefur siglt vel í gegnum faraldurinn

Veltuaukningin mælist einna mest í smásölu og má segja að smásöluverslanir hafi komist nokkuð vel í gegnum faraldurinn, enda tók þjónusta margra þeirra mið af breyttum aðstæðum til að mynda með aukinni heimsendingarþjónustu. Velta smásöluverslana jókst um 8 prósent að raunvirði á fyrstu 10 mánuðum ársins 2021 miðað við sama tíma árið 2020 og um 13 prósent sé miðað við sama tíma árið 2019.

Smásöluverslunin hefur komið vel út úr faraldrinum.

Fataverslun virðist hafa blómstrað verulega í faraldrinum og jókst velta um 27 prósent milli ára á fyrstu 10 mánuðum ársins 2021 og var 9 prósentum meiri en 2019 miðað við fast fataverð. Greina má talsverðar sveiflur í fataverslun í takt við þær samkomutakmarkanir sem hafa ríkt. Í mars og apríl árið 2020, þegar fyrsta bylgja faraldursins reið yfir, mældist samdráttur upp á 45 prósent milli ára. Ári síðar mældist svo 80 prósent aukning milli ára. Færri ferðalög Íslendinga til útlanda hafa eflaust stutt við fataverslun innanlands.

Velta í stórmörkuðum og dagvöruverslunum hefur, ólíkt veltu í fataverslunum, aukist nær stöðugt frá upphafi árs 2020. Rekja má þá þróun til aukins tíma fólks heima og þar með kaupa á ýmsum vörum til daglegrar neyslu heima við.

Viðsnúningurinn í ferðaþjónustu hefur verið afgerandi.

Ferðaþjónustan orðið verst úti

Líkt og fyrr segir er þróunin misjöfn eftir atvinnugreinum og ferðaþjónustan hefur óneitanlega orðið einna mest fyrir barðinu á faraldrinum. Velta eftir uppgjörstímabilum sýnir að rekstur gististaða dróst saman um nærri 80 prósent milli ára þegar mest lét og velta ferðaskrifstofa um allt að 94 prósent að raunvirði. Mikill viðsnúningur hefur orðið á þessari þróun og nýjustu gögn sýna ríflega áttföldun á veltu ferðaskrifstofa milli ára og þreföldun á veltu gististaða. Enn mælist veltan þó undir því sem sást á þessum árstíma árið 2019 hjá gististöðum og öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum.

Menningarstarfsemi hefur tekið hraðar við sér en veitingaþjónusta.

Veitingageirinn og menningarstarfsemi drógust ekki jafn mikið saman og þær þjónustugreinar sem eru beintengdari ferðaþjónustu. Mestur var samdrátturinn 47 prósent milli ára á veitingastöðum þegar faraldurinn brast fyrst á og svipaða sögu má segja um menningarstarfsemi sem dróst mest saman um 45 prósent milli ára um mitt árið 2020. Nýjustu gögn sýna aukningu upp á 80 prósent milli ára í veitingasölu og þjónustu og 120 prósent í menningarstarfsemi miðað við fast verðlag. Báðar þessar greinar eru farnar að velta meiru að raunvirði en á sama tíma árið 2019. Má rekja þá þróun til aukinnar neyslu Íslendinga á ýmissi þjónustu innanlands þegar samkomutakmarkanir leyfðu, en einnig aukinnar komu erlendra ferðamanna á